Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar, sakar Magnús M. Norðdahl, lögfræðing Alþýðusambands Íslands, um gerendameðvirkni vegna athugasemdar sem Magnús setti á færslu Tryggva Marteinssonar, sem var rekinn úr starfi hjá Eflingu í gær eftir 27 ára starf. MBL greindi frá því í morgun að Tryggvi sé maðurinn sem Sólveig Anna hefur sakað um hótanir í sinn garð.

Í færslu á Facebook staðfestir Sólveig Anna að hún hafi verið að ræða um Tryggva. Hún birtir einnig athugasemd Magnúsar við kveðjufærslu Tryggva, þar segir Magnús:

„Ömurlegar fréttir kæri félagi – á löngum ferli mínum í störfum fyrir þetta stóra stéttarfélag hefur við mig aldrei orði verið á þig hallað – þvert á móti.“

Hafi hótað ofbeldi

Sólveig Anna birtir svo bréf sem hún sendi Magnúsi með afriti til Drífu Snædal, forseta ASÍ, og Höllu Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra ASÍ. Þar fer hún hörðum orðum um Tryggva.

„Umræddur starfsmaður er sá sem hótaði mér ofbeldisverkum á heimili mínu. Hótuninni fylgdi nákvæm útlistun á því hvernig hann hefði áður gert hótanir gegn meintum óvinum sínum að veruleika og útskýringar á því hvers vegna hann teldi að hann myndi aðeins hljóta skilorðsbundinn dóm yrði hann dæmdur vegna þess sem hann hugðist gera mér,“ segir hún.

Sólveig Anna segir að hún sjálf hafi ekki komið nálægt því að víkja honum úr starfi. Víkur hún svo að færslu Tryggva.

„Í gærkvöldi birti starfsmaðurinn stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann segir frá uppsögninni. Hann uppnefnir af þessu tilefni stjórnendur Eflingar “kommúnista”, segist hafa “goldið þess” að vera “karlmaður og Íslendingur”, og notar tækifærið í ummælum neðan við færsluna til að spyrja hvort Efling sé að breytast í “pólska útgáfu af stéttarfélagi.” Uppfærsla starfsmannsins er opinber og öllum Facebook-notendum sýnileg.“

Geri ASÍ vanhæft til að taka á ofbeldi

Þá beinir Sólveig Anna orðum sínum að Magnúsi vegna athugasemdarinnar.

„Með orðum þínum lýsir þú frammi fyrir almenningi samúð og stuðningi við geranda í ofbeldismáli, og kastar um leið opinberlega rýrð á frásögn mína sem þolanda hótunar af hálfu viðkomandi. Þetta gerir þú jafnvel þú hljótir að vera upplýstur um inntak þess sem ég hef greint frá um málið, þ.e.a.s. hversu einbeittum vilja til ofbeldisverknaðar var lýst, að vitnisburður liggi fyrir og að málið hafi verið tilkynnt verið til lögreglu,“ segir hún.

„Ég tel að með framgöngu þinni hafir þú gert Alþýðusambandið vanhæft til aðkomu að málum sem snerta kynbundið ofbeldi og áreiti. Stofnun sem felur karli með þín viðhorf og hugmyndir um hvað telst ásættanleg opinber framganga í slíkum málum stöðu æðsta lögfræðivalds hefur tapað trúverðugleika sínum.“