Kristín Ása Guðmundsdóttir, sagn­fræð­ingur, gagnrýnir Landsvirkjun fyrir skort á samráði við íbúa og landeigendur varðandi fyrirhugaða Hvammsvirkjun.

Íbúar Skeiða- og Gnúpverjahrepps funduðu með Landsvirkjun 8. mars síðastliðinn um Hvammsvirkjun en Kristín segir að af umræðum að dæma sé greinilega ekki sátt um málið í sveitarfélaginu. Meðal þess sem var rætt á íbúafundinum var möguleg bótaskylda Landsvirkjunar gagnvart landeigendum vegna fyrri samninga. Kristín segir að landeigendur hafi verið rangt upplýstir eða blekktir við samningsgerð og sveitarstjórnarskrifstofa Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur margítrekað óskir um svör frá Landsvirkjun við spurningum sem bornar voru fram á fundinum, meðal annars um þetta efni.

Í aðsendri grein á Kjarnanum vitnar Kristín í bréf sem Þorsteinn Hilmarsson, fyrrverandi upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar, sendi á ónefndan heimamann í Gnúpverjahreppi þann 15. nóvember, 2007, þegar umræður um virkjanir í Þjórsjá komust í hámæli. Í bréfinu stendur:

„... sé ekki vilji til samn­inga mun Lands­virkjun bjóða fram bætur eftir því sem við á og í sam­ræmi við kvað­irn­ar. Sætti land­eig­end­urnir sig ekki við það getur þetta farið fyrir dóm­stóla, en þar er ekki fjallað um rétt eða rétt­leysi til að nýta vatns­ork­una, heldur hvernig staðið skuli við þá samn­inga sem land­eig­endur og Tít­an­fé­lagið gerðu á sínum tíma.“

Vatnsréttindi Títanfélagsins voru mikið til umræðu þegar upp komst að þeim hafi verið ráðstafað til Landsvirkjunar, þremur dögum fyrir alþingiskosningarnar 2007. Ríkisendurskoðun ályktaði síðar að framkvæmdavaldið hefði ekki mátt framselja réttindin.

Árið 2020 undirrituðu Landsvirkjun og hafnaryfirvöld í Rotterdam viljayfirlýsingu um að flytja út vetni. Vísir greindi frá því að Landsvirkjun finni fyrir stórauknum áhuga á raforkukaupum, Hvammsvirkjun væri meðal þeirra kosta sem Landsvirkjun hefur til að mæta óskum kaupenda um meiri raforkukaup.

Kristín er ósátt við þær fregnir að Landsvirkjun vilji nýta umframorku til orkuskipta erlendis. „Hér er nýlendu­græðgi og hrá­vöru­sala á raf­magni til útlanda gegnum sæstreng færð í nýja kápu, enda marg­faldar gærur Lands­virkj­unar ekk­ert nýnæmi,“ skrifar Kristín.

Hvammsvirkjun til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins

Markmið Parísarsamkomulagsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda er að halda auknum meðalhita á jörðinni vel innan við 2°C miðað við meðalhita fyrir iðnbyltingu og að leita leiða til að fara ekki yfir 1,5°C.

Niðurstöður greiningar sem var unnin var fyrir Samorku, samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi árið 2020 sýndu að Ísland þurfi að bæta uppsettu afli sem nemur 300 megavöttum fyrir árið 2030 til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins.

Landsvirkjun hefur nefnt tvo virkjanakosti sem er hugaðir til að anna aukinni eftirspurn tengda orkuskiptum á næstu árum. Annars vegar Búrfellslund og hins vegar Hvammsvirkjun. Í báðum tilfellum er um að ræða umdeilda virkjanakosti á Þjórsársvæðinu.

Hvammsvirkjun yrði 93ja megavatta virkjun með fjögurra ferkílómetra lóni niðri undir miðri sveit í Gnúpverjahreppi. Orkuvinnsla Hvammsvirkjunar yrði um 720 megavattstundir á ári. Skipulagsstofnun skilaði af sér áliti árið 2018 þar sem fram kom að umhverfisáhrif virkjunarinnar yrðu verulega neikvæð.

Kristín bendir á að Hvammsvirkjun skori ekki nærri hæst í Rammaáætlun sem álitlegur virkjanakostur. Rammaáætlun er áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæði og er ætlað að stuðla að því að að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi. Hér má sjá helstu virkjanakosti samkvæmt áætluninni.

Fréttin hefur verið uppfærð.