Lög­maður Kristjönu Val­geirs­dóttur, fjár­mála­stjóra Eflingar, segir að um­mæli Gunnars Smára Egils­sonar um hana séu meira en nægt til­efni til meið­yrða­máls og kröfu miska­bóta á hendur honum.

Gunnar Smári gerði Kristjönu og störf hennar fyrir Eflingu að um­fjöllun sinni um helgina í kjöl­far fréttar Morgun­blaðsins þar sem fjallað var um verktakagreiðslur Eflingar til Öldu Lóu Leifs­dóttur, eigin­konu Gunnars Smára, fyrir verk­efnið Fólkið í Eflingu.

„Ómerkileg manneskja og illgjörn“

Í frétt Morgun­blaðsins sagði að fjár­mála­stjóri fé­lagsins hefði neitað að borga Öldu Lóu síðustu greiðsluna fyrir verk­efni sitt, upp á eina milljón króna, en hún átti þá að hafa fengið fjórar milljónir greiddar. Fjármálastjórinn væri nú í veikindaleyfi og töluverð kergja væri innan félagsins.

Í kjöl­far um­fjöllunarinnar sagði Gunnar Smári að Kristjana væri „aug­ljós­lega ó­merki­leg manneskja og ill­gjörn“ í færslu sem hann birti á Facebook.

„Hvernig Gunnar kemst að þeirri niður­stöðu er ill­skiljan­legt þar sem um­bjóðandi minn kannast ekki við Gunnar Smára Egils­son nema úr fjöl­miðlum og minnist þess ekki að hafa hitt þann mann né átt nein sam­skipti við hann,“ segir í yfir­lýsingu sem Lára V. Júlíus­dóttir, lög­maður Kristjönu, sendi frá sér vegna málsins.

Kveðst ekki kannast við Öldu Lóu

Þar segir að Kristjönu hafi ekki verið kunnugt um um­fjöllun Morgun­blaðsins um stöðuna innan Eflingar. Það sé gegn trúnaði að ræða ein­staka störf fé­lagsins eða verk­efni við fjöl­miðla. „Þó er ó­hjá­kvæmi­legt að bregðast við þeim rang­færslum og ó­hróðri sem hún nú verður fyrir af hálfu Gunnars Smára.“

Jafn­framt þekki hún hvorki Öldu Lóu né hafi hitt. Nafn hennar komi hvergi fram á reikningum eða gögnum sem um ræðir. „Á­sökunin telst því al­ger­lega til­hæfu­laus enda vand­séð hvaða á­stæðu um­bjóðandi minn hefur til að sverta nafn per­sónu sem hvergi kemur fram í við­komandi skjölum og um­bjóðandi minn þekkir ekki og sér fyrst nafnið í um­fjöllun Gunnars Smára Egils­sonar,“ segir í yfir­lýsingunni.

Tilhæfulausar ásakanir og ávirðingar

Í um­fjöllun Gunnars Smára ræðir hann til­færslur Kristjönu á fjár­munum Eflingar til fjár­festinga­fé­lagsins GAMMA. Í yfir­lýsingu Kristjönu segir að allar meiri háttar fjár­festingar Eflingar eigi stoð í fjár­festingar­stefnu fé­lagsins og séu þær sam­þykktar í hvert og eitt skipti af stjórn þess í heild.

Þá vék Gunnar Smári máli sínu að sam­býlis­manni Kristjönu, Mark Brin­k, sem heldur úti veitinga­þjónustu. Þar segir hann að Kristjana hafi beitt sér fyrir því að beina við­skiptum Eflingar að veitinga­rekstri Marks.

„Að þessu til­efni er nauð­syn­legt að taka fram að við­skipti eldri fé­laga og síðan Eflingar við hann hófust fyrst í stjórnar­tíð Guð­mundar J. Guð­munds­sonar og fluttust síðan yfir til Hall­dórs Björns­sonar. Þetta var löngu áður en kynni Kristjönu og Marks hófust. Um­bjóðandi minn tengdist aldrei pöntunum veitinga vegna funda. Slíkt var á hendi formanna fé­lagsins eða skrif­stofu­stjóra í um­boði þeirra.“

Þá segir að lokum að skrif Gunnars Smára séu full af til­hæfu­lausum á­sökunum og á­virðingum sem „eru til þess eins gerðar að koma af stað ó­hróðri [um Kristjönu]“.

„Til­gangur Gunnars Smára Egils­sonar er sýni­lega ekki annar en að sverta mann­orð hennar með skrifum sínum og leitast við að draga úr þeim trú­verðug­leika sem um­bjóðandi minn hefur ætíð notið innan Eflingar og eldri fé­laga,“ segir í yfir­lýsingunni og er því bætt við að ó­mak­legt sé að ráðast gegn starfs­manni með til­hæfu­lausum á­sökunum, sem nú sé ó­vinnu­fær vegna veikinda.

Tilefni til meiðyrðamáls og miskabótakrafna

Auk þess er mynd­birting Gunnars Smára af Kristjönu gagn­rýnd, en hún fylgdi ofan­greindum á­sökunum um hana. Segir Lára í yfir­lýsingunni, fyrir hönd Kristjönu, að mynd­birtingin sé á­mælis­verð og hluti af per­sónu­á­rásum sem ekki sé hægt að sitja undir.

„Hvað Gunnari Smára gengur til með um­fjöllun sinni skal ó­sagt látið og ekki vitað til þess að hann hafi hingað til borið hag verka­lýðs­stéttar þessa lands sér­stak­lega fyrir brjósti, en allar þessar fölsku og röngu á­virðingar sem bornar eru á um­bjóðanda minn hljóta að kalla fram við­brögð af hálfu hennar. Ljóst er að þær eru al­var­leg að­för að mann­orði hennar og meira en nægt til­efni til meið­yrða­máls og kröfu miska­bóta á hendur Gunnari Smára Egils­syni,“ segir að lokum.

Fréttin hefur verið uppfærð.