„Þessi forseti virðist ekki vera búinn að átta sig á því að það sé komið úr tísku að brjóta allt og bramla á heimilinu og kenna síðan einhverjum öðrum um að hafa „látið sig gera það“,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata í færslu á Facebook fyrr í dag.

Helgi Hrafn er einn nokkurra þingmanna stjórnarandstöðunnar sem ausið hafa úr skálum reiði sinnar á samfélagsmiðlum í dag eftir að forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, sleit þingfundi í morgun án þess að þingmenn gætu beint fyrirspurnum til ráðherra.

Steingrímur sagði í samtali við Fréttablaðið fyrr í dag að hann hafi ekki haft ástæðu til að óttast að of margir þingmenn yrðu í þingsal í dag en fundinum var slitið í morgun eftir að Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata kvaddi sér hljóðs og taldi á þriðja tug þingmanna í þingsal.

Stjórnandstaðan flykktist í salinn

„Fundurinn átti jú að hefjast á óundirbúnum fyrirspurnum, þar voru sex ráðherrar til svara og aðeins sex þingmenn komast að með spurningar, eða tólf manns. Þar fyrir utan eru áminningar og hvatningar út um allt á spjöldum þar sem minnt er á fjarlægðarmörk og hvatt til að þeim sé hlýtt,“ sagði Steingrímur í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Steingrímur sagði að margir þingmenn, einkum úr stjórnarandstöðu, hafi flykkst inn í salinn í byrjun fundar og margir hafi beðið um orðið. Því hafi fjöldinn því miður farið eitthvað yfir tuttugu.

„Þessi fundur var settur á að ósk stjórnarandstöðunnar og ég sá ekki ástæðu til að halda honum áfram í hennar óþökk." sagði Steingrímur.

Forseti misnoti ástandið

Helgi Hrafn gagnrýnir forseta fyrir þessar skýringar og segir forseta segja ósatt.

„Ósvífnin í söguskýringum forseta hefur náð nýjum hæðum. Hann veit mætavel hvað gerðist. Hann reyndi að misnota neyðarástandið sem núna einkennir þingstörfin til þess að láta mál ríkisstjórnarinnar renna mjúklega í gegn og inn í nefnd, vitandi mætavel að þingmenn ættu erfiðara með, og sé jafnvel ómögulegt, að sinna sínu aðhaldshlutverki - nema auðvitað með því að fjölmenna niðri á þingi, gegn öllum góðum ráðum og almennri skynsemi.“ Segir Helgi Hrafn í færslunni.

Sjúkleg þörf til að beita valdboði

„Það er ekkert minna en lygi að stjórnarandstaðan beri nokkra einustu ábyrgð á því að ekki hafi verið haldnar óundirbúnar fyrirspurnir eða umræða um störf þingsins. Það var hann sjálfur sem sleit fundi áður en kom til þeirra, ekki minnihlutinn. Hann vissi ennfremur mætavel að tekið yrði til máls um fundarstjórn í upphafi fundar vegna þess að um þetta var deilt í meira eða minna allan gærdag og lokin á þeim samskiptum fólu í sér nákvæmlega það. Því eru það einnig fullkomin ósannindi af hans hálfu að þetta hafi komið honum á óvart. Hann ber sjálfur ábyrgð á allri þessari atburðarás og hafði algjört sjálfsvald um framhaldið á henni,“ segir Helgi og sakar þingforsetann um að hundsa viðleitni þingmanna til að haga störfum sínum þannig að allir geti unað við, eða svara þeim með skætingi. Eini vandinn sé „sjúkleg þörf forseta fyrir að gera alla hluti með valdboði.“

"Enginn skal efast um ægivald og drottinsmátt Steingríms J. Sigfússonar"

Helgi segir að annars vegar hafi forseti reynt að misnota ástandið til að hlífa ríkisstjórninni við aðhaldshlutverki minnihlutans, „eitthvað sem forseti ætti að skammast sín fyrir,“ segir Helgi. Hins vegar noti forseti hvert tækifæri til að sýna að hann ráði.

Fargan af ósannindum flæði til fjölmiðla

„Farganið af ósannindum sem flæðir nú frá forseta í fjölmiðlum, á sama tíma og hann hundsar beiðni um fund í forsætisnefnd til þess að ræða málin, er þvílíkt að það þarf skipulagt átak til að svara því öllu,“ segir Helgi og spáir fyrir um hver viðbrögð forsetans við gagnrýninni verði.

„Hann verður ægilega reiður yfir því að hann sé gagnrýndur, vegna þess að enginn skal efast um ægivald og drottinsmátt Steingríms J. Sigfússonar. Væntanlega hafa allir nema hann gengið allt of langt að hans mati og því „neyðist“ hann væntanlega til þess að sýna hvað í sér býr með einhverjum dólgslegum geðþóttaákvörðunum, sem fyrir algjöra tilviljun munu draga enn meira úr getu minnihlutans til að sinna sínum störfum, en hann mun væntanlega kenna þeim sama minnihluta um að hafa neytt sig til að gera það. Þessi forseti virðist ekki vera búinn að átta sig á því að það sé komið úr tísku að brjóta allt og bramla á heimilinu og kenna síðan einhverjum öðrum um að hafa „látið sig gera það“.

Forseti hefur átt fund með formönnum þingflokka í dag en enginn þingfundur hefur verið boðaður hvorki í dag né á morgun. Bið verður því á að svör fáist við þeim fyrirspurnum sem þingmenn vildu beina til ráðherra á þingfundi í morgun.

Ósvífnin i söguskýringum forseta hefur náð nýjum hæðum. Hann veit mætavel hvað gerðist. Hann reyndi að misnota...

Posted by Helgi Hrafn Gunnarsson on Thursday, April 16, 2020