Bandaríska sendiráðið á Íslandi spyr í Facebook færslu sem birt var í nótt hvort falsfréttir séu komnar til Íslands. Sendiráðið sakar Fréttablaðið jafnframt um falsfréttaflutning.
Tilefnið er frétt Fréttablaðsins frá því í gær þar sem greint var frá því að smit hefði greinst hjá starfsmanni. Starfsmenn sendiráðsins hafa verið kallaðir út til flutninga á sunnudag, tveimur dögum fyrir forsetakosningar.
Í Facebook færslu sendiráðsins er fullyrt að tekist hafi að vígja nýja sendiráðið án þess að til smita hafi komið. Ekki kemur fram hvenær sendiráðið var vígt en á Twitter síðu Jeffrey Ross Gunter, sendiherra, má sjá að það var gert í síðustu viku, þann 20. október.
„Löngu eftir vígslu kom upp eitt tilfelli vegna smits í íslenskum skóla,“ segir svo jafnframt í tilkynningunni. Þar segir að skömmin sé núna hjá Fréttablaðinu fyrir ábyrgðarlausa blaðamennsku.
Þá er fullyrt að Ísland hafi eina hæstu tíðni kórónuveirusmita í Evrópu. Samkvæmt tölum Evrópsku sóttvarnarstofnunarinnar er nýgengni smita þó mun hærra í mörgum öðrum Evrópulöndum. Á Íslandi er fjórtán daga nýgengi smita á hverja 100 þúsund íbúa hér á landi 256. Í Bretlandi er það 431, í Hollandi 771 en í Belgíu er það 1498, svo dæmi séu tekin.
Segir í færslunni að ömurlegt sé að „Fals-Fréttablaðið“ sé svo ófagmannlegt og sýni virðingarleysi „með því að nota COVID-19 í pólitískum tilgangi.“ Að lokum er fullyrt að bandaríska sendiráðið hafi alltaf verið og sé öruggasta athvarfið frá COVID-19 í Reykjavík.
Has Fake News Arrived in Iceland? America has succeeded with the #NewUSEmbassy completed and dedicated while having...
Posted by US Embassy Reykjavik Iceland on Thursday, 29 October 2020
Styður Trump
Jeffrey Ross Gunter, sendiherra, var tilnefndur í embættið af Donald Trump, Bandaríkjaforseta árið 2018. Sá forseti hefur ítrekað sakað fjölmiðla um falsfréttaflutning og meðal annars sagt blaðamenn vera „óvini fólksins.“
Gunter hefur um árabil verið húðsjúkdómalæknir í Kaliforníu. Studdi hann Trump í forsetakosningunum árið 2016 og sat meðal annars í fjármálanefnd undirbúningsteymis hans eftir kosningarnar.
Áður hefur bandaríski miðillinn CBS gert vinnuumhverfi í sendiráðinu skil. Þannig greindi miðillinn frá því í sumar að Gunter hafi skapað erfiðar vinnuaðstæður fyrir starfsfólk. Sjö manns eru sagðir hafa gegnt stöðu staðgengils hans frá því að hann tók við.
Þá hefur Gunter verið sagður „vænisjúkur“ um öryggi sitt hér á landi. Hann hafi óskað eftir því að fá sérstakt leyfi frá íslenskum yfirvöldum til að bera byssu, að því er CBS hafði eftir fjölda ónefndra stjórnarerindreka, embættismönnum og fleirum sem sagðir voru þekkja til málsins.
America succeeded with the #NewUSEmbassy dedicated with Zero COVID-19 ever. Long after dedication, a single employee case was caught from an Icelandic school. Sad that Fake News @frettabladid_is using COVID for politics. Proud @usembreykjavik has always been one of the SAFEST!
— U.S. Embassy Iceland (@usembreykjavik) October 30, 2020