Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir eiganda City Park Hotel í Ármúla hafa hindrað að starfsfólk hótelsins fengi að kjósa um vinnustöðvun. Sérútbúinn sendiferðarbíll á vegum Eflingar hefur í dag ekið á milli gististaða í Reykjavík þar sem félgsmönnum stéttarfélagsins gefst kostur á að greiða atkvæði um verkfallsaðgerðir. Eigandi hótelsins vísar þessum ásökunum á bug og gagnrýnir harðlega vinnubrögð Eflingar.

Samtök atvinnulífsins hafa krafist þess að atkvæðagreiðslunni verði hætt þar sem hún sé ólögleg. Hafa samtökin hótað að höfða félagsdómsmál á hendur stéttarfélaginu, verði það ekki við kröfunni. Í samtali við Fréttablaðið segir Sólveig daginn hafa gengið mjög vel, fyrir utan reynslu þeirra á City Park Hotel. 

„Það var okkar upplifun að hóteleigandinn hafi raunverulega meinað okkur aðgang að koma þarna inn í anddyrið. Minn skilningur og samstarfskonu minnar á því sem gerðist þarna er sá að hann kom í veg fyrir að félagsmenn Eflingar gætu greitt atkvæði,“ segir Sólveig. „Það var hópur af starfsmönnum sem voru komin og tilbúin að greiða atkvæði en svo var það mín upplifun að hann hafi komið í veg fyrir það.“

Gagnrýnir vinnubrögð Eflingar

Árni Valur Sólonsson, eigandi City Park Hotel, vísar ásökununum á bug. Segir hann forsvarsmenn Eflingar hafa boðað komu sína í hádeginu, en hann hafi tjáð fulltrúa þeirra á hótelinu að þau væru velkomin að koma klukkan tvö þegar starfsfólkið fengi pásu. 

„Samkvæmt vinnureglum milli SA og verkalýðsfélaganna þá ber þeim skilda að fá samþykki fyrir þessum vinnustaðafundum hjá yfirmanni. Þau gerðu það ekki,“ segir Árni í samtali við Fréttablaðið.

„Ég vil gjarnan að þau kynni fyrir þeim hvað er verið að fara fram á í verkalýðsbaráttunni. Reyndin var nú önnur, þau komu hérna klukkan tólf og eru að reyna að draga fólk hérna út um dyrnar og inn í einhvern lítinn bíl til að greiða atkvæði. Þetta eru mjög undarlega aðstæður sem starfsfólkið er sett í,“ segir Árni sem gagnrýnir stéttarfélagið fyrir óeðlileg vinnubrögð. 

„Starfsfólkið kom hérna til mín eftir þessa uppákomu og sagði að þeim liði svolítið eins og þau væru komin aftur til gamla Póllands þegar kommúnistastjórnin mætti á vinnustaðina og var að draga það að kosningaborðinu og sagði þeim hvað það ætti að kjósa.“ 

Þannig þau eru velkomin að koma síðar, þegar það hefur verið skipulagður fundur?

„Þau eru aldrei velkomin hingað, en þau geta komið þegar þau eru búin að tala við mig og segjast hvenær þau ætla að koma en ekki til þess að draga fólk út í einhvern bíl,“ segir hann og hvetur starfsmenn til að kjósa á eigin forsendum. „Helduru að það sé ekki frekar yfirþyrmandi fyrir unga Pólverja að verkalýðsforystan hangi yfir bakinu á þeim og segi þeim hvað þau eigi að kjósa. Ég vil bara að þetta séu frjálsar kosningar,“ segir hann. „Ég er búin að kynna málið fyrir þeim en verkalýðsforystan hún hefur ekki reynt að kynna nokkurn skapað hlut heldur bara komið hérna að kosningaborðinu.“

Líf og heilbrigðis starfsmanna ógnað

City Park Hotel er staðsett í Ármúla í Reykjavík. Í október á síðasta ári stöðvaði Vinnueftirlitið alla vinnu hjá hótelinu þegar í ljós kom að vinna á verkstað var án byggingarleyfis. Þar fundust merki um að starfsmenn svæfu og höfðust við á verkstað og voru öryggismál í ólagi. 

Í skýrslu Vinnueftirlitsins kemur meðal annars fram að ástand rafmagnsmála hafi verið mjög hættulegt og rafmagnssnúrur verið hangandi niður úr loftum. Þá voru ótryggir rafmagnskaplar milli hæða og slysahætta fyrir starfsmenn. Eins þóttu umferðarleiðir milli hæða ófullnægjandi og þurftu starfsmenn að fara upp brattan stiga án handriða og setti Vinnueftirlitið út á notkun persónuhlífa. Starfsmenn voru ekki með hjálma né í öryggisskóm.