Árni Valur Sólonsson, hótelstjóri, svarar Eflingu fullum hálsi eftir að stéttarfélagið sendi Árna erindi í dag vegna „ólöglegra hópuppsagna“ á hótelum hans. „Þetta er bara bull og lygi, „ segir Árni í samtali við Fréttablaðið.
Aðgerðina segir Árni vera uppsögn á launalið í samningi starfsfólksins. Hún hafi verið fullkomlega lögleg og gerð í samráði við lögfræðing Samtaka atvinnulífsins. „Það hefur engum verið sagt upp hjá mér,“ segir Árni. „Ég er að borga langbestu launin fyrir þessi störf í bænum. Ég er bara að segja upp launaliðnum, sem sagt því sem ég er að borga umfram taxta.“
„Þetta er eitthvað sem Eflingu kemur ekkert við. Ég er að borga meira en það sem þeir hafa samið um“ heldur Árni áfram. Hann sé að greiða starfsfólki sínu 50.449 kr. umfram það sem kjarasamningarnir kveði á um. Hótelin sem um ræðir eru Capital-Inn, City Park Hotel og City Center Hotel.
Enginn hefur sagt upp vegna þessara aðgerða samkvæmt Árna og sömuleiðis hefur engum verið sagt upp starfi. Aðeins hafi einn sagt upp starfi vegna breytinga á vaktafyrirkomulaginu, ekki vegna launa.
„Ef hún hefði nennt að hlusta á mig áður en hún fór í verkföllin þá hefði hún nú varla farið í verkföll, vegna þess að ég er að yfirborga launin hjá starfsfólkinu mínu,“ segir Árni og vitnar þá í Sólveigu Önnu Jónsdóttur formann Eflingar.

Nánast ekkert starfsfólk hættir í vinnu hjá Árna að sögn hans. „Vegna þess að það er vel borgað hjá mér og fólkinu líður vel í vinnu þangað til hún kom þessi kelling þarna, kommúnistinn, til valda hjá Eflingu.“
„Ekki hefur hún haft fyrir því að koma í eitt einasta skipti og kynna þessa nýju samninga fyrir starfsfólkinu. Vegna þess að hún hafði enga ástæðu til þess, greinilega. Hún vill bara fara í verkfall. Það eina sem henni gengur til er að vekja athygli á sjálfri sér,“ segir Árni að lokum.