Borgarstjórn Reykjavíkur undirritaði í gær ársreikning fyrir árið 2018 eftir aðra umræðu um hann. Mikill hiti var á fundinum eins og Fréttablaðið greindi frá í gær en Vigdís Hauksdóttir hafði lýst því yfir fyrir fundinn að hún myndi ekki skrifa undir reikninginn vegna túlkunarágreinings.

Vigdís greiddi ein atkvæði á móti reikningnum og Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins sat hjá. Þær skrifuðu svo báðar undir reikninginn með fyrirvara en Vigdís birti ítarlega bókun sína á Facebook-vegg sinn þar sem hún fer yfir athugasemdir sínar við reikninginn.

Þar bendir hún á að Reykjavíkurborg hafi brotið sveitastjórnarlög sem fjalla um bindandi áhrif ákvörðunar um fjárhagsáætlun þegar borgin greiddi úr borgarsjóði umfram fjárheimildir í framkvæmdum við Nóthólsveg 100, eða Braggann, og við Hlemm Mathöll. Þannig skorti fjárheimildir fyrir 73 milljónum fyrir Braggann og 47 milljónum fyrir Mathöllina.

Í samtali við Fréttablaðið skýrði Vigdís það að að hennar mati væri ársreikningurinn ekki í samræmi við lög þegar kæmi að því að fjárhæðir væru réttar eða að eftir heimildum hafi verið leitað til að fara yfir fjárheimildir í þessum málum. „Ég meina þetta eru lágar upphæðir en þetta er samt ólöglegt,“ segir Vigdís. „Prinsipp eru prinsipp og það er ekki hægt að brjóta lög lítið eða mikið. Annaðhvort á sér stað lögbrot eða ekki.“

Álit endurskoðunarnefndar

Vigdís benti á að enn væri ekki búið að opinbera álit endurskoðunarnefndar sem borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins óskaði eftir um fullyrðingar fjármálaskrifstofu borgarinnar. Þannig hafi fjármálaskrifstofa sagt að með undirritun borgarfulltrúa á ársreikningi væru þeir að samþykkja umrædd útgjöld borgarinnar.

Endurskoðunarnefnd fól Trausta Fannari Valssyni að vinna álitið. Trausti er dósent við Lagadeild Háskóla Íslands og var verkefnisstjóri endurskoðunar sveitarstjórnarlaga. Hann skilaði inn áliti sínu til Borgarstjórnar 22. apríl síðastliðinn en það hefur enn ekki verið lagt fyrir borgarráð.

„Nú er búið að loka ársreikningnum. Svo bara opinberast öll viskan þegar þessi álit koma fyrir borgarráð og þá náttúrulega er bara hægt að segja við okkur: sorry þetta bara kom of seint fram, við getum ekkert gert,“ segir Vigdís, „og það er sjónarspilið, það er leikurinn sem er verið að leika.“ Að hennar sögn þrábað hún um að álit Trausta yrði kynnt fyrir borgarráði á síðasta borgarráðsfundi.

„Það er búið að vera að halda þessu í skjóli og leyndu fyrir okkur kjörnum fulltrúum síðan þá [22. apríl]. Það er 15. maí í dag. Þetta er ekki boðleg stjórnsýsla,“ segir Vigdís þá.

Svikin loforð

Að sögn Vigdísar var því lofað á fundi borgarráðs fyrir viku að álitið yrði kynnt á næsta fundi sem verður haldinn á morgun, fimmtudaginn 16. maí. Málið sé hinsvegar hvergi að finna inni á dagskrá fundarins.

„Síðast vildu þau ekki kynna það því að fjármálaskrifstofan er enn með það til umsagnar,“ segir Vigdís. Hún segir það ekki eiga að skipta neinu máli: „Að það þurfi alltaf að vera að svara fyrir, á vettvangi borgarinnar, hina ýmsu skandala og leggja það síðan fyrir borgarráð, það er bara ekki boðlegt, við erum öll læs og eigum að mynda okkur skoðanir út frá þeim skýrslum sem koma frá eftirlitsstofnunum borgarinnar og ríkisins.“

„Það er mikill þagnarmúr í kringum allt til þess að gera okkur ekki eins auðvelt fyrir að upplýsa mál. Það eru beinlínis svik við mig sem kjörin fulltrúa að kynna álitið ekki á morgun því að þessu var lofað,“ segir Vigdís að lokum.

Ekki náðist í Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, formann borgarráðs og oddvita Viðreisnar, sem sér um dagskrárgerð borgarráðsfundar.