Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, lét rétt í þessu falla sömu orð og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, samflokkskona hans, var dæmd brotleg fyrir að segja í umræðuþættinum Silfrinu í febrúar 2018. Ummælin voru um Ásmund Friðriksson og endurgreiðslur sem hann naut frá Alþingi á grundvelli skráninga í akstursdagbók hans.

Þannig taldi siðanefnd Alþingis Þórhildi Sunnu brotlega en ekki Björn Leví sem hafði látið svipuð orð falla um endurgreiðslurnar. Björn Leví steig rétt í þessu upp í pontu á þingfundi og hélt þar ræðu undir dagskrárliðnum störf þingsins. Þar sagði Björn siðanefnd Alþingis greinilega hafa misskilið orð sín ef hennar mat væri að Þórhildur Sunna væri brotleg en ekki hann vegna þess að þau voru „efnis- og innihaldslega þau sömu.“

Því næst endurtók hann þá orð Þórhildar Sunnu sem hún var dæmd brotleg fyrir: „[Vegna álits forsætisnefndar] þá verð ég að tjá skoðun mína aftur og nota nú orð sem allir skilja, þar á meðal siðanefnd. Nú var rökstuddur grunur um það að Ásmundur Einar hafi dregið að sér fé, almannafé, og við erum ekki að sjá viðbrögð þess efnis að það sé verið að setja á fót rannsókn í þeim efnum."

Þetta eru nákvælega þau orð sem Þórhildur Sunna lét falla í Silfrinu sunnudaginn 25. febrúar 2018 og var fundin sek fyrir brot á siðareglum þingmanna fyrir þau. „Ég segi þessi orð með fullri vitneskju um að þau hafa verið dæmd sem brot gagnvart siðareglum þingmanna. Við vitum það hins vegar öll hérna inni að þau eru sönn,“ sagði Björn.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, benti þingmanni þá á að hann teldi þessa notkun dagskrárliðarins ekki við hæfi.

Þegar Ásmundur Friðriksson steig svo stuttu síðar í pontu til að ræða ræktun á repju hóf hann mál sitt á því að biðja forseta að taka mál Björns Levís fyrir: „Virðulegur forseti, eineltið heldur áfram og ég bið þig að skoða það rækilega fyrir mig.“

Fleiri höfðu síðan orð á málinu, meðal annars Birgir Ármannsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sem kallaði eftir viðunandi refsingu á „vítaverðum ummælum“ Björns Levís.