Þingmenn Miðflokksins, auk Karls Gauta Hjaltasonar og Ólafs Ísleifssonar, sem eru óháðir þingmenn, gagnrýndu Steingrím J. Sigfússon harðlega og sökuðu hann bæði um valdníðslu og lögbrot á þingi í dag. 

Kosið var um hvort útnefna ætti tvo nýja varaforseta á þingi í dag og fóru fram umræður um málið. Áður kosið var fór fram umræða um málið. Þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, sem öll voru á Klausturbar að kvöldi 20. nóvember, tóku ítrekað til máls á Alþingi í dag og sögðu málið ekki standast lög. 

Hélt það væri fleiri „prinsippmenn“ á þingi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði liggja fyrir að málið standist hvorki lög né stjórnarskrá. Kvaðst hann hafa talið fleiri „prinsippmenn“ vera á þingi og lýsti yfir vonbrigðum sínum með Sjálfstæðisflokkinn í málinu. 

Sjá einnig: Steinunn og Haraldur taka fyrir Klausturs­málið

„Mér finnst sorglegt að sjá hvernig forsetinn hefur leitt þingið út í þessar ógöngur,“ sagði Sigmundur meðal annars og gagnrýndi Steingrím harðlega vegna málsins. Sagði hann forseta hafa virt erindi þingmanna Miðflokksins að vettungi, en þau sendu honum síðast bréf vegna málsins í morgun.

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, tók einnig til máls nokkrum sinnum. Sagði hún að verið væri að fylgja vanhæfum forseta í máli sem ekki eigi sér lagastoð. 

Valdníðsla sem rennur ljúflega niður

Karl Gauti Hjaltason, óháður þingmaður sem einnig var á Klausturbar umrætt kvöld, sagði málið og afgreiðsla þess hin hlægilegilegasta. „Herra forseta er tíðrætt um það hve einróma forsætisnefndin hafi verið í öllum sínum málum, vanhæf forsætisnefnd var einróma,“ sagði hann, en forsætisnefnd lýsti sig vanhæfa til að taka málið fyrir í desember. 

Sagði hann málið óneitanlega minna á landsdómsmálið og ekki væri furða að það rinni „ljúflega niður pólitíska andstæðinga.“ Þá gagnrýndi hann Sjálfstæðisflokkinn harðlega fyrir þátt sinn í málinu. 

Ólafur Ísleifsson, einnig óháður þingmaður, gagnrýndi Steingrím J. Sigfússon harðlega vegna málsins og sagði málið „nánast fyndið ef það væri ekki sorglegt.“ Beindi hann máli sínu að Sjálfstæðisflokknum. „Ætla Sjálfstæðismenn að láta háttvirtan þingforseta draga sig út í þetta?“ Spurði hann og vitnaði í einkunarorð Miðflokksins, sem um tíma voru einkunarorð Sjálfstæðisflokksins: „Gjör rétt – þol ei órétt.“

Langflestir samþykktu varaforseta

Tillagan var þó samþykkt, 45 atkvæði gegn 9, og voru þau Steinunn Þóra Árnadóttir og Haraldur Benediktsson því sjálfkjörnir tímabundnir varaforsetar. Munu þau taka Klaustursmálið til málsmeðferðar og færa það í réttan farveg.