Karlmaður fær 1,5 milljónir króna í bætur frá íslenska ríkinu vegna tjóns á æru hans eftir lögregluaðgerðir í tengslum við rannsókn á meintum kynferðis- og ofbeldisbrotum mannsins.

Maðurinn var til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum vegna gruns um innflutning á fíkniefnum. Sömuleiðis hafði eiginkona mannsins lagt fram kæru og var maðurinn handtekinn og gert að sæta gæsluvarðhaldi grunaður um kynferðis- og ofbeldisbrot tengdum vændi og mansali.

Lögreglan hleraði síma mannsins, gerði húsleit á heimili foreldra hans og á vinnustað sem maðurinn segir að hafi orðið til þess að hann hafi misst vinnuna og æru sína og orðspor. Hann taldi rannsóknaraðgerðirnar óvenju umfangsmiklar og óréttlætanlegar.

Lögreglan rannsakaði manninn eftir að kæra barst frá eiginkonu hans um að hafa gert hana út sem vændiskonu og haft af því hagnað.
Fréttablaðið/GVA

Gögn í síma studdu frásögn konunnar

Maðurinn neitaði sakargiftum við skýrslutöku en þar var hann spurður að hvaða leyti hann og þáverandi eiginkona hans hefðu komið að vændi og voru svör hans samkvæmt dómnum svohljóðandi:

„Ég vil ekkert svara þessu, þetta finnst mér bara vera, ég neita að svara þessu“. Spurður hvers vegna hann vildi ekki svara sagði hann „Þetta finnst mér bara ekki vera svaravert“ og tók fram að þau fyrrverandi hjónin hefðu stundað svokallaðan „swing-lífstíl“ frá ársbyrjun 2013 og fram á fyrri hluta árs 2018.

Maðurinn taldi svör sín ekki hafa verið til þess fallin að stuðla að aðgerðum lögreglu eins og gæsluvarðhaldi og símahlerun. Lögreglan hafnaði þessu og sagði rökstuddan grun hafa verið fyrir hendi. Hann hafi verið kærður af þáverandi eiginkonu sinni fyrir alvarleg brot, meðal annars fyrir að hafa gert hana út sem vændiskonu og haft af því hagnað. Gögn í snjalltækjum konunnar hefðu stutt frásögn hennar. Tilkynning hefði borist um að maðurinn stæði að innflutningi á fíkniefnum og mátti finna myndir í síma eiginkonu mannsins af fíkniefnum og hlutum þeim tengdum. Þremur mánuðum fyrr hafði maðurinn verið tekinn fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna.

Maðurinn fór fram á 15 milljónir í bætur. Dómurinn hafnaði öllum kröfum mannsins nema einni. Dómurinn tók undir með manninum að þungbært hafi verið að sæta rannsókn lögreglu og þola þvingunaraðgerðir, gæsluvarðhald og einangrun. Dómurinn tók ekki undir með manninum, að aðgerðir lögreglu hafi verið óréttlætanlegar. Þær hafi verið í samræmi við meðalhóf.