Maðurinn sem hóf skotárás í verslunarmiðstöðinni Field‘s í Kaupmannahöfn síðdegis í gær hefur hlotið stöðu sakbornings, en hann er sakaður um þrjú morð og sjö morðtilraunir og hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 28. júlí. Þetta kom fram á blaðamannafundi lögreglunnar í Kaupmannahöfn fyrir stundu.
Þá verður sakborningurinn lagður inn á geðdeild og honum gert að sæta geðrannsókn eins fljótt og auðið er.
Að sögn Dannie Rise, yfirlögregluþjóns, er lögregla nú á vettvangi til að afla nánari vísbendinga um málið. Hann segir að þó sé enn allt á huldu þegar kemur að ástæðu skotárásarinnar.
„Í augnablikinu er ekkert sem bendir til þess að tengsl séu á milli hins grunaða og fórnarlambanna,“ segir Rise, og bætir við að þó vilji hann ekki útiloka neitt.
„Þetta er eitthvað sem við erum að rannsaka. Hvort það gæti hafa verið bein tenging milli fórnarlambanna eða eitthvað mynstur sem hafi orðið þess valdandi að einmitt þessir einstaklingar urðu fyrir skoti,“ segir Rise.
Tíu manns voru skotin í árásinni, sex konur og fjórir karlar. Sex danskir ríkisborgarar, tveir sænskir ríkisborgarar, einn afganskur ríkisborgari og einn rússneskur, en tveir síðastnefndu eru báðir búsettir í Danmörku.
Að sögn Rise liðu þrettán mínútur frá því að fyrsta tilkynning barst lögreglu þar til árásarmaðurinn var yfirbugaður og handtekinn.
„Það var eins og heil eilífð. En það sem gerðist fram að þeim tíma er það sem við þurfum að kortleggja,“ segir Rise.