Maðurinn sem hóf skot­á­rás í verslunar­mið­stöðinni Field‘s í Kaup­manna­höfn síð­degis í gær hefur hlotið stöðu sak­bornings, en hann er sakaður um þrjú morð og sjö morð­til­raunir og hefur verið úr­skurðaður í gæslu­varð­hald til 28. júlí. Þetta kom fram á blaða­manna­fundi lög­reglunnar í Kaup­manna­höfn fyrir stundu.

Þá verður sak­borningurinn lagður inn á geð­deild og honum gert að sæta geð­rann­sókn eins fljótt og auðið er.

Að sögn Danni­e Rise, yfir­lög­reglu­þjóns, er lög­regla nú á vett­vangi til að afla nánari vís­bendinga um málið. Hann segir að þó sé enn allt á huldu þegar kemur að á­stæðu skot­á­rásarinnar.

„Í augna­blikinu er ekkert sem bendir til þess að tengsl séu á milli hins grunaða og fórnar­lambanna,“ segir Rise, og bætir við að þó vilji hann ekki úti­loka neitt.

„Þetta er eitt­hvað sem við erum að rann­saka. Hvort það gæti hafa verið bein tenging milli fórnar­lambanna eða eitt­hvað mynstur sem hafi orðið þess valdandi að ein­mitt þessir ein­staklingar urðu fyrir skoti,“ segir Rise.

Tíu manns voru skotin í á­rásinni, sex konur og fjórir karlar. Sex danskir ríkis­borgarar, tveir sænskir ríkis­borgarar, einn af­ganskur ríkis­borgari og einn rúss­neskur, en tveir síðastnefndu eru báðir bú­settir í Dan­mörku.

Að sögn Rise liðu þrettán mínútur frá því að fyrsta til­kynning barst lög­reglu þar til á­rásar­maðurinn var yfir­bugaður og hand­tekinn.

„Það var eins og heil ei­lífð. En það sem gerðist fram að þeim tíma er það sem við þurfum að kort­leggja,“ segir Rise.