Vísaði Deloire til atviks í apríl í fyrra á mótmælum á Gaza-svæðinu, við landamæri Ísraels og Palestínu. Samkvæmt skýrslu frá sjálfstæðri rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna skutu ísraelskar leyniskyttur að öllum líkindum palestínsku blaðamennina Yaser Murtaja og Ahmed Abu Hussein til bana af ásetningi.

Skýrslan greinir frá því að mennirnir hafi báðir verið skýrt merktir sem blaðamenn og haldið á myndavélum. Genfarsáttmálinn skilgreinir fréttamenn á stríðssvæðum sem óbreytta borgara og því eru allar árásir gegn þeim stríðsglæpir.

„Rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur einungis staðfest það sem við nú þegar töldum vera staðreynd,“ sagði Deloire í viðtali við The Jerusalem Post (JP).

Ísrael var í 88. sæti á yfirliti Blaðamanna án landamæra um frelsi fjölmiðla á heimsvísu 2019, sæti neðar en í fyrra. Deloire sagði marga Ísraela gagnrýna lista samtakanna, og vilja meina að landið ætti að vera ofar á listanum.

Deloire svaraði gagnrýninni. „Ég er viss um að það gerist ekki í mörgum löndum að auglýsingaskilti eru reist með andlitum blaðamanna sem stendur á „þeir munu ekki ákveða“,“ sagði Deloire við JP. Vísaði Deloire þar í herferð Likud-flokksins gegn blaðamönnum sem höfðu fjallað um sakamálarannsókn í máli Benjamins Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. „Þeir munu ekki ákveða“ vísar þá í kosningarnar 9. apríl 2018, stuttu eftir að auglýsingarnar voru birtar.

„Ísraelar eru vissulega í erfiðum kringumstæðum, en það er margt sem má bæta þegar það kemur að frelsi fjölmiðla í landinu,“ sagði Deloire við JP.