Einstaklingar innan stríðandi fylkinga í Jemen, bæði uppreisnarhreyfingar Húta og hernaðarbandalagsins til stuðnings Abdrabbuh Mansur Hadi forseta, gætu hafa gerst sekir um stríðsglæpi. Þetta segir í skýrslu sérfræðingateymis mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um Jemen sem birt var almenningi í gær.

„Sérfræðingarnir telja að ríkisstjórnir Jemens, Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Sádi-Arabíu beri ábyrgð á mannréttindabrotum. Meðal annars ólögmætri sviptingu réttarins til lífs, handahófskenndum handtökum, nauðgunum, pyntingum, illri meðferð, þvinguðum mannshvörfum og herskráningu barna sem og alvarlegum brotum á tjáningarfrelsinu, efnahagslegum-, félagslegum- og menningarlegum réttindum. Einna helst réttinum til mannsæmandi lífs og heilsu,“ segir meðal annars í skýrslunni.

Þar segir einnig að hin raunverulegu yfirvöld vesturstrandar landsins, sum sé Hútar, beri ábyrgð á brotum gagnvart alþjóðalögum á yfirráðasvæðum sínum. Mannréttindabrotum á borð við handahófskenndar handtökur, pyntingar, illa meðferð og herskráningu barna sem og brotum á tjáningar- og trúfrelsi.

Árásir á almenning

Margar blaðsíður skýrslunnar fara undir umfjöllun um loftárásir hernaðarbandalagsins. Meðal annars er greint frá því að teymið hafi skoðað 60 tilfelli þar sem slíkar árásir voru gerðar á íbúðahverfi þar sem fleiri en 500 almennir borgarar féllu samanlagt. Þá voru 29 árásir á opin svæði skoðaðar og fórust samanlagt 300 hið minnsta í þeim. Ellefu árásir á markaði voru skoðaðar, til að mynda „sérstaklega svæsin“ árás á markað í Mastaba þar sem rúmlega 100 fórust.

Einnig er fjallað um að hernaðarbandalagið hafi beitt „tvöföldum árásum“ þar sem ráðist er aftur á skotmark eftir að sjúkralið kemur á svæðið.

Gagnrýnt er að hernaðarbandalagið hafi ráðist á fjölda sjúkrahúsa, skóla, moska og menningarhúsa. Slíkar byggingar njóta sérstakrar verndar undir alþjóðalögum. Samkvæmt sérfræðingunum hafa slíkar árásir verið að minnsta kosti 32 og fengu sérfræðingar „trúverðugar upplýsingar“ um að listi yfir verndaða staði hefði ekki verið í nægilega góðri dreyfingu á meðal yfirmanna hernaðaraðgerða bandalagsins.

Sérfræðingarnir segja að 6.475 almennir borgarar hafi farist á milli upphafs stríðs í mars 2015 og júní 2018 en líklega sé sú tala miklu, miklu hærri. Bæði Bretar og Bandaríkjamenn hafa stutt hernaðarbandalagið.

Samtökin Læknar án landamæra hafa orðið fyrir barðinu á loftárásunum, að því er kemur fram í skýrslunni. „Þann 11. júní 2018 greindu Læknar án landamæra frá því að loftárás hefði verið gerð á kólerumeðferðarstöð í Abs í Hajjah-héraði. Samtökin greindu frá því að hnit meðferðarstofunnar hefðu verið send hernaðarbandalaginu tólf sinnum,“ segir í skýrslunni.

Mannúðarmál í ólagi

„Frá því í mars 2017 hefur samhæfingarskrifstofa aðgerða SÞ í mannúðarmálum verið með Jemen í fyrsta sæti yfir stærstu mannúðarkrísur heims. Í apríl 2018 þurftu 22,2 milljónir á aðstoð að halda, þar af voru 11,3 milljónir í bráðri neyð. Heildarfólksfjöldi Jemen er 29,3 milljónir. Þörfin nær yfir öll svið: Matvæli, heilsu, hreinlæti, vatn, húsnæði og almenna vernd.“

Bandalagið er sakað um að koma í veg fyrir hjálparstarf í landinu. „Fyrir átökin flutti Jemen inn nærri 90 prósent matvæla sinna, lyfja og eldsneytis. Eiginlegar herkvíar hernaðarbandalagsins hafa bitnað á almenningi, sérstaklega á svæðum undir stjórn Húta,“ segir í skýrslunni.

Sérfræðingarnir halda því fram að í apríl 2018 hafi 17,8 milljónir Jemena átt í erfiðleikum með að sjá sér fyrir mat og 8,4 milljónir væru á barmi hungursneyðar. Enn fremur væru heilbrigðisinnviðir óstarfhæfir, hreint vatn væri af skornum skammti og enn geisaði í Jemen mesti kólerufaraldur seinni tíma.

Þessi mikla þörf er að miklu leyti til komin vegna herkvía hernaðarbandalagsins. „Bandalagið hefur sett alvarlegar takmarkanir við siglingum og flugi frá því í mars 2015 með vísan í vopnasölubann öryggisráðsins frá 2015,“ segir í skýrslunni.

Sérstaklega er vísað til þess að í nóvember, eftir að Hútar skutu eldflaugum að Sádi-Arabíu, hafi bandalagsmenn sett allt landið í herkví og þannig komið algjörlega í veg fyrir alla mannúðaraðstoð og öll viðskipti, meðal annars með matvæli og eldsneyti. Sú herkví varði að öllu leyti í meira en mánuð en í apríl síðastliðnum voru einhverjar takmarkanir enn í gildi.

Hútar ekki saklausir

Eins og segir hér að ofan eru Hútar sömuleiðis sagðir mögulega bera ábyrgð á stríðsglæpum, þótt skýrslan fjalli að meira leyti um meint brot hernaðarbandalagsins. Líkt og hernaðarbandalagsmenn eru þeir sakaðir um að brjóta með alvarlegum hætti á tjáningarfrelsinu og ráðast á almenna borgara.

Hútar eru jafnframt sakaðir um að hafa beitt sér gegn kvenfrelsi og trúfrelsi. „Sérfræðingateymið hefur vitneskju um að nokkrir sem játa bahai-trú séu í haldi í San’a á grundvelli trúar sinnar og hafa sumir verið í haldi í meira en tvö ár. Í ár var bahai, handtekinn 2013, dæmdur til dauða og fékk hann ekki að vera viðstaddur dómsuppkvaðningu. Sami dómur kvað á um að leysa skyldi upp allar fjöldasamkomur bahaia. Hútar neituðu beiðni sérfræðingateymisins um að heimsækja fórnarlambið. Í sjónvarpsræðu þann 23. mars 2018 sagði leiðtogi Húta að bahaitrú væri satanísk og í stríði við íslam.“

Þá kemur einnig fram að framkvæmdastjóri SÞ hafi greint frá 842 staðfestum tilfellum þar sem strákar allt niður að ellefu ára aldri voru látnir taka þátt í hernaði. Segir sérfræðiteymið í skýrslunni að þau tilfelli séu tvöfalt algengari á meðal Húta en allra annarra fylkinga.

Hryllingur í Bureiqa

Fjallað er ítarlega bæði um illa meðferð fanga sem og hækkandi tíðni kynferðisofbeldis í Jemen í skýrslunni. Ljótasta dæmið sem tekið er er um meðferð flóttamanna frá Erítreu, Eþíópíu og Sómalíu í Bureiqa-fangelsinu í Aden.

Skæruliðasamtökin Öryggisbeltið starfrækja Búðirnar. Þau samtök eru leppher furstadæmanna samkvæmt sérfræðinefndinni. Í skýrslunni segir að nauðganir og annað kynferðisofbeldi gegn föngum hafi verið gegnumgangandi í fangelsinu, þá oft í viðurvist fjölskyldu og vina viðkomandi.

„Þolendur og vitni lýstu því fyrir sérfræðingum að fangaverðir hefðu á hverri nóttu valið sér konur og drengi til að misnota. Einn fyrrverandi fangi lýsti herbergi fangavarða með þremur rúmum þar sem margir fangaverðir réðust á nokkrar konur samtímis. Konum var sagt að leyfa þeim að nauðga sér, annars ættu þær að svipta sig lífi. Aðrir greindu frá því að einstaklingar sem sýndu mótspyrnu hefðu verið barðir, skotnir eða myrtir.

Að minnsta kosti einu sinni skipuðu fangaverðir hundruðum eþíópískra karlfanga að standa naktir klukkutímum saman fyrir framan tugi eþíópískra kvenfanga í refsingarskyni. Að sögn viðmælenda fylgdu nauðgunarhótanir þessari refsingu,“ segir í skýrslunni.

Öllum föngum var sleppt úr Bureiqa í maí síðastliðnum eftir að yfirmaður fangelsisins var færður til í starfi.

Tilmæli sérfræðinganna

Mælst er til þess í niðurlagi skýrslunnar að alþjóðasamfélagið, meðal annars Arababandalagið, aðstoði erindreka framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í Jemen við að koma á friði og að tryggja að réttlætinu verði fullnægt. Alþjóðasamfélagið er beðið um að hætta vopnasendingum til Jemens.

Þá beina sérfræðingarnir þeim tilmælum til mannréttindaráðsins að tryggja að málefni Jemens haldist á borði ráðsins með því að framlengja umboð nefndarinnar sem og hvetja öryggisráðið til þess að setja mannréttindabrotahlið átakanna í forgang og tryggja að ekkert refsileysi verði fyrir alvarlegustu glæpina.

Hernaðarbandalagið hafnaði skýrslunni í gær og sagði Sameinuðu þjóðirnar sýna hlutdrægni sína með því að fordæma loftárásirnar. Turki al-Malki upplýsingafulltrúi sagði skýrsluna byggja á sögusögnum uppreisnarmanna.