Landssamband veiðifélaga segir vandamálið við eldislax vera að ekki geti talist skynsamleg ráðstöfun að ala allt að 25 milljónir frjórra laxa af norskum uppruna á suðurfjörðum Vestfjarða. „Slíkt gengur gegn hagsmunum náttúrunnar og eigenda 1700 lögbýla sem hafa stóran hluta af lifibrauði sínu af lax- og silungsveiðum. En tekjur af þeim hlunnindum eru á mörgum svæðum styrk stoð fyrir búsetu í dreifðum byggðum. Svo virðist sem þeir hagsmunir eða hagsmunir náttúrunnar séu stjórnmálamönnum ekki ofarlega í huga í dag.“

Ákvörðun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hefur verið mikið í umræðunni, en á föstudaginn ákvað nefndin að fella úr gildi starfs- og rekstrarleyfi eldislaxfyrirtækjanna Fjarðalax ehf. og Arctic Sea. Fyrirtækin tvö, Fjarðalax og Arctic Sea Farm, höfðu fengið leyfi frá MAST til að framleiða 10.700 tonn annars vegar og 6800 tonn hins vegar í opnum sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngur- og sveitarstjórnarráðherra er meðal þeirra sem hefur tjáð sig um málið og ritaði hann á Facebook síðu sína í dag að mikilvægi fiskeldis í uppbyggingu byggða fyrir vestan og austan væri staðreynd og ætti ekki að vera ágreiningsmál.

„Það er mikilvægt að allir átti sig á raunstöðunni og mikilvægi þess að atvinna sé til staðar. Í öðrum löndum höfum við séð nákvæmlega sömu þróun - þ.e. að svæði sem áður máttu þola fólksfækkun hafa nú snúið við með uppbyggingu fiskeldis á þeim svæðum. - Allir eru sammála um mikilvægi þess að byggja fiskeldið upp á varkárinn og sjálfbæran hátt - ekki síst innan greinarinnar sjálfrar,“ skrifaði Sigurður Ingi.

Landssamband veiðifélaga er ekki sammála þessum málaflutningi og svarar Sigurði á Facebook síðu sinni. Félagið segir að nær undantekningalaust hafi norsku eldisfyrirtækin gert lítið úr umhverfisáhrifum starfseminnar og fraga hafi þurft með töngum fram upplýsingar um umhverfisáhrif eldisins á öllum stigum umhverfismatsferilsins. „Augljóst er að það er vel mögulegt að draga fram eldi á geldum fisk sem raunhæfan kost á móti því að ala frjóan fisk. Það hafa fyrirtækin ekki gert enda hafa þau engan kostnað af því að menga íslenska náttúru með erfðamengun eða annarri mengun.“

Þá sakar landssambandið stjórnvöld um „endalausa eftirlátssemi“ í tengslum við laxeldi. Stjórnvöld funduðu með bæjarstjóra Vesturbyggðar og oddvita Tálknafharðarhrepps ásamt sveitarstjórnarmönnum sveitarfélaganna um helgina vegna málsins. Katrín Jakobsdóttir hefur einnig tjáð sig um málið, en hún ritaði á Facebook síðu sinni í morgun að bæði sjávarútvegsráðherra og umhverfisráðherra séu með til skoðunar hvaða leiðir séu færar til þess að gæta meðalhófs í málinu.

„Þegar úrskurðarnefnd um auðlindamál fellir þann úrskurð að draga þurfi upp aðra kosti heldur en eldi á frjóum norskum laxi í opnum sjókvíum er eðlilegt að fyrirtækin geri það einfaldlega. Í stað þess er gamla trikkið notað að fá stjórnmálin til að gefa starfseminni slaka og heilbrigðisvottorð. Á náttúran aldrei neina talsmenn,“ segir að lokum í færslu landssambandsins.