Hörður J. Oddfríðarson, dagskrárstjóri göngudeildar SÁÁ, telur að Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafi framið brot, þegar Ari Matthíasson hafi sem starfsmaður SÍ skoðað sjúkraskrár skjólstæðinga SÁÁ og kallað eftir upplýsingum um tiltekna einstaklinga.

SÍ hafa kært SÁÁ til embættis héraðssaksóknara fyrir „gríðarlegt magn“ tilhæfulausra reikninga, meðal annars vegna viðtalsþjónustu við umbjóðendur.

„Þótt við höfum ekki enn séð efni kærunnar er hreinlega galið að kæra SÁÁ fyrir 175 milljóna króna fjársvik, á tímum þar sem var verið að bregðast við aðstæðum í rauntíma,“ segir Hörður.

Hörður segir að vegna Covid hafi SÁÁ breytt vinnureglum með sama hætti og starfsmenn heilsugæslunnar, tekið viðtöl með því að hringja í stað þess að hitta skjólstæðinga. Starfsfólk SÁÁ hafi verið á vinnustað, en starfsfólk heilsugæslunnar hafi jafnvel hringt heiman frá sér. Þá sé tekist á um fleira, svo sem skilgreiningu á aldurshópi ungmenna.

Hörður segir að deildarstjóri eftirlitsdeildar SÍ, Ari Matthíasson, hafi fyrr og síðar amast við stétt áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Hann virðist í afneitun á að áfengis- og vímuefnaráðgjafar SÁÁ voru að sinna þjónustu við fíknisjúklinga og aðstandendur í fordæmalausu ástandi, heimsfaraldri Covid-19. Alvarlegust sé þó meðferð Ara á sjúkraskrám í þessu máli.

„Hann fékk afrit af sjúkraskrám okkar skjólstæðinga í nafni rannsóknareftirlits. Ég á erfitt með að sjá að Sjúkratryggingar hafi haft nokkra lagalega heimild til að fara inn í sjúkraskrár okkar sjúklinga sem voru að þiggja þjónustu á þessum tíma, né heldur að miðla þeim upplýsingum sem þar koma fram út úr stofnuninni,“ segir Hörður.

Hörður segir að SÍ hafi viljað lesa sjúkraskrár allra sem fengu ákveðna þjónustu á tilteknu tímabili. Það stríði gegn anda laga um viðkvæmar persónuupplýsingar.

„Við vitum að heilbrigðisstarfsfólk má fara inn i sjúkraskrár en það var ekki heilbrigðisstarfsmaður sem las þessar skrár. Ari Matthíasson er ekki heilbrigðisstarfsmaður,“ segir Hörður.

Hann segir að Ari hafi sjálfur birst í SÁÁ og í krafti embættis síns hafi hann lesið sjúkraskrár á staðnum en einnig fengið afhentar sjúkraskrár og farið með út úr húsi, sérstaklega hafi hann kallað eftir gögnum um tiltekna einstaklinga.

„Samkvæmt lögum hefur eftirlitsnefnd heimild til að skoða þessi gögn en þá þarf það að vera heilbrigðisstarfsmaður sem skoðar gögnin. Það er, ef ekki ólöglegt, að minnsta kosti á mörkum hins siðlega, að hringja í skjólstæðinga samtakanna og lesa upp úr sjúkraskrám þeirra eins og hann lét starfsfólk SÍ gera.

Ari er fyrrverandi framkvæmdastjóri SÁÁ. María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga, segir það ekki hafa gert hann vanhæfan til að vinna að þessu eftirliti. „Ég hef engar forsendur til að ætla að deildarstjóri eftirlitsdeildar beri þungan hug eða einhvern kala til SÁÁ. Allir starfsmenn Sjúkratrygginga átta sig á mikilvægi þeirrar þjónustu sem þar er veitt,“ segir María.

Þá segir María að Sjúkratryggingar telji sig hafa fylgt öllum reglum um meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga.

f12100418-vogur-15.jpg

Sjúkrahúsið að Vogi