Rússneskir aðilar reyndu að hafa áhrif á bresku þingkosningarnar árið 2019 með því að dreifa illa fengnum trúnaðargögnum á samfélagsmiðlum.

Þetta sagði Dominic Raab, utanríkisráðherra Breta, í yfirlýsingu til fjölmiðla í dag. Er þetta í fyrsta skipti sem breskur ráðherra gengst við því opinberlega að stjórnvöld í Moskvu hafi reynt að hafa þar áhrif á kosningar.

Gögnin notuð af Verkamannaflokknum í kosningabarátunni

Raab sagði að víðtæk athugun stjórnvalda hafi leitt í ljós að þau telji „nær fullvíst að rússneskir aðilar hafi reynt að hafa afskipti af þingkosningunum árið 2019“ með því að ýta undir dreifingu illa fenginna og lekinna gagna frá stórnvöldum á samfélagsmiðlum.

Þá sagði Raab stjórnvöld áskilja sér þann rétt að svara fyrir þetta með „viðeigandi aðgerðum í framtíðinni.“

Er um að ræða mikið magn lekinna tölvupósta sem komust í hendur Jeremy Corbyn, þáverandi formanns Verkamannaflokksins, í kosningabaráttunni.

Vakti athygli á gögnunum

Fullyrti Corbyn að póstarnir sýndu fram á að þá sitjandi ríkisstjórn undir forsæti Íhaldsflokksins teldi til greina koma að veita bandarískum fyrirtækjum aðgang að breska heilbrigðiskerfinu.

Að sögn stjórnvalda voru gögnin birt á samfélagsmiðlinum Reddit og reyndi Twitter-notandi í kjölfarið að vekja athygli á þeim með því að vísa blaðamönnum og þjóðþekktum einstaklingum á gögnin. Að endingu hafi þrýstihópur komið þeim áfram til Verkamannaflokksins.

Fréttin hefur verið uppfærð.