Stjórn stéttarfélagsins Eflingar vísar fréttaflutningi Morgunblaðsins, um óvinveitta yfirtöku og vanda innan félagsins, á bug. Fréttaskýring birtinst í Morgunblaðinu í dag undir fyrirsögninni „Óvinveitt yfirtaka á Eflingu?“ Þar er meðal annars fullyrt að ekki sé allt með felldu hjá stéttarfélaginu og greint frá því að samkvæmt heimildum blaðamanns Morgunblaðsins hafi tveimur af reynslumestum starfsmönnum félagsins, fjármálastjóra og bókara, verið sendir í ótímagreint veikindaleyfi. 

Ástæðan er sögð vera sú að fjármálastjóri stéttarfélagsins hafi neitað að greiða Öldu Lóu Leifsdóttir, blaðamanni og ljósmyndara, himinháan reikning án þess að fyrirlægi samþykki stjórnar Eflingar fyrir greiðslu Eflingar. Alda Lóa er einnig eiginkona Gunnars Smára Egilssonar, formanns Sósíalistaflokksins, sem studdi við framboð Sólveigar Önnu Jónsdóttir til formanns Eflingar. 

Sögð hafa gengið inn á skrifstofu Eflingar með himinháan reikning

Í yfirlýsingu frá stjórn stéttarfélagsins, sem send var rétt í þessu, er líkt og fyrr segir frétt Morgunblaðsins hafnað og blaðið sakað um að slá fram „staðlausum fullyrðingum“ í fréttinni.

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að samkvæmt heimildum blaðsins hafi Alda Lóa hafi gengið inn á skrifstofu Eflingar fyrir skemmstu með reikning upp á eina milljón króna, meðal annars vegna ljósmynda sem hún hafði tekið í þágu stéttarfélagsins. Í frétt Morgunblaðsins segir ennig að Alda Lóa hefði þá fengið um 4 milljónir króna greiddar vegna svipaðra verkefna.

Fullyrðingin sögð röng og ekki standast skoðun

Í yfirlýsingu Eflingar er þessu einnig hafnað alfarið. „Hvorki formaður né framkvæmdastjóri Eflingar kannast við þá fullyrðingu blaðamanns Morgunblaðsins að fjármálastjóri hafi neitað að greiða reikninga frá Öldu Lóu Leifsdóttur blaðamanni sökum þess að þeir hafi ekki verið samþykktir af stjórn. Alda Lóa hefur með ótvíræðu samþykki stjórnar Eflingar unnið hið glæsilega kynningarverkefni „Fólkið í Eflingu“, og fyrir þá vinnu sína hefur hún að sjálfsögðu fengið greitt. Hafa þær greiðslur verið í fullkomnu samræmi við ákvörðun stjórnar um úthlutun fjármuna til verkefnisins, sbr. bókun í fundargerð af stjórnarfundi 23. ágúst 2018. Fjármálastjóri og bókari hafa annast meðhöndlun innsendra reikninga vegna verkefnisins athugasemdalaust. Fullyrðing Morgunblaðsins um að þær greiðslur hafi verið ásteitingarsteinn milli nýrra stjórnenda og fjármálastjóra félagsins er röng og stenst enga skoðun.“

Saka Morgunblaðið um grófar dylgjur

Þá hafnar stjórn stéttarfélagsins því að þær frásagnir sem Morgublaðið kveðst hafa undir höndum frá ótilgreindum heimildarmönnum séu sannar. „Þær óstaðfestu frásagnir sem lagðar eru í munn starfsfólks Eflingar í fréttinni, án samþykkis þeirra, eru ekki aðeins rangar, heldur fela í sér grófar dylgjur og ásakanir um ámælisverð vinnubrögð í fjármálum á skrifstofum Eflingar. Einfalt er að svara þeim ásökunum.

Frá því nýr formaður og framkvæmdastjóri hófu störf á skrifstofum Eflingar í lok apríl á þessu ári hefur verkferlum varðandi dagleg útgjöld verið fylgt samkvæmt venjum félagsins. Ákvarðanir um stærri útgjöld hafa verið bornar upp á fundum stjórnar, kynntar og samþykktar, líkt og ítarlegar fundargerðir eru til vitnis um. Enn fremur hafa nýir stjórnendur Eflingar tekið frumkvæði í að leita eftir ráðgjöf hjá hæfum aðilum um hvernig megi gera enn betur til að innleiða gagnsæi og fagmennsku í fjármálum Eflingar, svo sem með því að vinna út frá samþykktri fjárhagsáætlun sem gildi ár í senn.“