Röskum tveimur mánuðum eftir að umsóknarfrestur um stöðu forstöðumanns Listasafns Íslands rann út hefur enn ekki verið ráðið í hana. Í millitíðinni hefur sá umsækjandi sem talinn var hæfastur helst úr lestinni.

Fjöldi myndlistarmanna hefur gagnrýnt ráðningarferlið, en ráðherra segir að um vandaða stjórnsýslu sé að ræða og hafnar því að ráðningin hafi dregist úr hömlu.

„Við ætlum að vanda okkur sérstaklega við ráðninguna,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra málaflokksins, en hún var sem kunnugt er gagnrýnd fyrir ráðningu nýs þjóðminjavarðar nýlega, sem jafnframt er fyrrverandi forstöðumaður Listasafns Íslands.

„Mínir félagsmenn eiga ekki til orð,“ segir Anna Eyjólfsdóttir, formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna. „Ég heyri mikla gagnrýni vegna þessa langa ráðningarferlis,“ bætir hún við.

Sjö sóttu um stöðuna en um­sóknarfrestur rann út í september í haust. Fjórir voru metnir hæfir, þar af einn hæfastur, Gunnar B. Kvaran, sem verið hefur forstöðumaður listasafna heima og erlendis um áratugaskeið, en lengst af á síðari árum hefur hann stjórnað stærsta einkasafni með nútímamyndlist í Evrópu, sem er í Osló.

Gunnar hefur nú dregið umsókn sína til baka – og innan myndlistargeirans telja margir það vera reginhneyksli að stjórnsýslan hafi misst af jafn hæfum manni. „Hann var maðurinn til að rífa upp safnið á nýjaleik,“ segir einn heimildarmanna blaðsins. „Þegar líða fór á langaði mig bara ekki nógu mikið heim,“ segir Gunnar sjálfur.

Ráðherra segist treysta úrvalsfólki í hæfnisnefndinni, sem muni kynna umsækjendum greinargerð sína í dag. Að svo búnu hefjist ráðningarviðtöl.

„Engar tafir hafa orðið á ráðningarferlinu sem allt er samkvæmt ströngustu fyrirmælum stjórnsýslulaga og annarrar löggjafar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir.