Þrjú bandarísk flugfélög hafa mótmælt því að Icelandair fái leyfi til að fljúga farþegum milli Bandaríkjanna og Kúbu og saka flugfélagið um tækifærismennsku. Að Icelandair muni ekki byggja upp þessar flugleiðir til framtíðar eins og þau hyggist gera.

Í september var greint frá því að Loftleiðir, dótturfélag Icelandair, hefði samið um leiguflug fyrir félagið Anmart Air, alls þrettán ferðir milli Orlando borgar í Flórdía fylki og Havana, höfuðborgar Kúbu. Nú á hins vegar að bæta í og fljúga alls 136 ferðir, fram og til baka, milli Havana og Miami á Flórída, sem og 17 ferðir til Orlando og 17 til Houston í Texas fylki.

Nokkur flugfélög gerðu athugasemdir

Flugfélögin iAero Airways, World Atlantic Airlines og GLOBALX, sem öll hafa sinnt Kúbuflugi hafa sent inn athugasemdir til bandarísku samgöngustofnunarinnar, DOT, vegna leyfisveitingar Icelandair.

Í athugasemd iAero segir að innkoma Icelandair mun hamla bandarískum flugfélögum sem séu að byggja upp flugleiðirnar milli Kúbu og Bandaríkjanna á nýjan leik. Félagið hafi sjálft nógu margar vélar til að leigja Anmart fyrir flugið.

Einnig að Icelandair væri farið að reiða sig í of miklum mæli á flug undir hinu svokallaða „sjöunda frelsi.“ En það er rétturinn sem ríki veita flugfélögum í þriðja ríki til þess að sinna millilandaflugi fyrir sig. Þetta væri 20 prósent af starfseminni nú.

„Aðalástæða Icelandair fyrir umsóknum um 170 flugferðir yfir 4 mánaða tímabil er að þrengja efnahagslega að bandarískum flugfélögum,“ segir í athugasemd iAero. Alls eru flugferðirnar milli Bandaríkjanna og Kúbu 3600 fram og til baka á ári.

„Anmart Superior Travel valdi Loftleiðir einfaldlega sem samstarfsaðila í þessu flugi og því kemur gagnrýni bandarísku flugfélaganna okkur á óvart,“ segir Árni Hermannsson, framkvæmdastjóri Loftleiða.

„Á meðal ástæðna sem Anmart hefur fyrir valinu er að Loftleiðir geta boðið upp á stærri flugvélar með meira farangursrými, en algengt er að fólk taki mikinn farangur með sér á þessari flugleið. Fjöldi flugfélaga sinnir flugi á milli tveggja annarra landa en heimalandsins og á það sérstaklega við um flugfélög sem sinna leiguflugi.“

Árni Hermannsson framkvæmdastjóri Loftleiða
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Segir hann Loftleiði áður hafa skipulagt verkefni í leiguflugi fyrir bandarískar ferðaskrifstofur og það gengið vel. Það er frá borgunum Detroit og Boston til áfangastaða í Karíbahafinu.

Í yfirlýsingu sendi Icelandair einnig frá sér að tölur iAero um hlutfall „sjöunda-frelsis flugs“ væru bjagaðar í ljósi faraldursins. Í vanalegu árferði sé fjöldi flugferða Icelandair milli Íslands og Bandaríkjanna mun hærra.