Armenar og Aserar samþykktu að vopnahlé ætti að hefjast á miðnætti að staðartíma í gær, klukkan átta að íslenskum tíma. Nú saka löndin hvort annað um að hafa brotið gegn skilmálum samkomulagsins. BBC greinir frá.

Talsmaður varnarmálaráðuneytis í Armeníu sagði á Twitter að Aserar hafi rofið vopnahléið eftir aðeins fjórar mínútur með því að skjóta sprengikúlum og flugskeytum á skotmörk í Nagorno-Karabakh.

Varnarmálaráðuneyti Asera greinir þó frá því í morgun að það hafi verið armenskar hersveitir sem fyrst brutu upp vopnahléið. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins hafi Armenar brotið vopnahléið með stórskotahríð og eldflaugaárásum, skrifar aserbaídsjanska fréttastofan APA.

Ekki hefur verið tilkynnt um meiðsl á fólki enn sem komið er.

Hundruð hafa látið lífið

Hörð átök hafa staðið yfir á milli Armena og Asera í Nagornó-Karabak í um þrjár vikur. Svæðið er alþjóðlega viðurkennt sem hluti af Aserbaídsjan en rekið af þjóðernissinnuðum Aserum.
Minnst 600 eru látnir vegna átakanna í Nagornó-Karabak þar á meðal óbeyttir borgarar. Þetta kemur fram í tölum héraðsstjórnarinnar og Asera, en Aserar gefa ekki upp hversu margir hermenn hafa fallið. Átökin eru orðin þau mannskæðustu frá því í stríðinu á tíunda áratugnum er 30 þúsund manns létust.

Bæði löndin undirrituðu samning um vopnahlé sem miðlað var af utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov í gær. Þrátt fyrir samninginn halda átökin áfram.