Annar kaupandanna sem höfðaði mál gegn FEB vegna í­búðar­kaupa að Ár­skógum hefur sent frá sér til­kynningu til fjöl­miðla en í henni kemur meðal annars fram að sáttir hafi ekki náðst og þá er FEB sakað um skort á samnings­vilja og grófar að­dróttanir gegn kaupendum í fjöl­miðlum. Lesa má til­kynninguna neðst í fréttinni.

Eins og Frétta­blaðið hefur greint frá náðist sam­komu­lag við hinn kaupandann sem höfðaði mál gegn fé­laginu. Kom þá fram í til­kynningu FEB að enn væri unnið að því að ná sam­komu­lagi við kaup­enda hinnar í­búðarinnar, sem nú hafa sent frá sér til­kynningu.

Í til­kynningunni segja kaup­endur í­búðarinnar að þeim þyki afar leitt að samningar hafi ekki náðst við FEB. „Gróf fram­ganga og mikil harka FEB í málinu gerir það að verkum að kaup­endur sjá sig nauð­beygða til þess að halda inn­setningar­máli sínu til streitu,“ segir þar einnig.

Þá er þar einnig rakinn skortur á samnings­vilja FEB og sagt að samninga­leiðin sé full­reynd. Verður inn­setningar­málinu því haldið á­fram og þing­fest næst­komandi föstu­dag. Kaup­endurnir segjast frá fyrsta degi hafa sýnt fullan sam­starfs­vilja í málinu og komið því á fram­færi við fé­lagið.

Til­kynning kaup­endanna í heild sinni:

Kaup­endum að íbúð við Ár­skóga þykir það afar leitt að samningar náðust ekki við FEB. Gróf fram­ganga og mikil harka FEB í málinu gerir það að verkum að kaup­endur sjá sig nauð­beygða til þess að halda inn­setningar­máli sínu til streitu.

Mikill skortur á samnings­vilja hjá FEB og grófar að­dróttanir í fjöl­miðlum, þ.m.t. hótanir um að leysa til sín í­búðirnar ef ekki er gengið að afar­kostum, gera það að verkum að ekki náðust samningar.

Samninga­leiðin við FEB er full­reynd og því verður inn­setningar­máli haldið á­fram og þing­fest föstu­daginn 23. ágúst kl. 10:15.

Frá fyrsta degi hafa kaup­endur sýnt fullan sam­starfs­vilja í málinu og komið honum marg­sinnis á fram­færi við Fé­lag eldri borgara. Samnings­staðan í málinu er ó­jöfn, samningurinn ein­hliða og upp­lýsingar af skornum skammti.

Fé­lag eldri borgara hefur einkum notað tvenns konar á­róður til að knýja kaup­endur til að sam­þykkja þá afa­kosti sem fé­lagið hefur sett fram. Annars vegar hefur verið talað um gjald­þrot fé­lagsins og af­leiðingar þess og hins vegar hefur fé­lagið hótað því að virkja kaup­rétt að í­búðunum. Þannig heldur fé­lagið því fram að það geti ein­hliða hrifsað til sín í­búðir fólks. Þessi túlkun á kaup­rétti fé­lagsins við endur­sölu virðist okkur í besta falli undar­leg.

Hvað gjald­þrot varðar geta kaup­endur ekki einir borið á­byrgð á þeim mis­tökum sem komið hafa í ljós hjá Fé­lagi eldri borgara. Það er leiðin­legt að sjá hvernig fé­lagið hefur reynt að varpa á­byrgð sinni yfir á fé­lags­menn sína sem í góðri trú voru að kaupa hús­næði á á­kveðnum for­sendum.

Kaup­endur telja því réttast að halda inn­setningar­máli til streitu meðan FEB fer fram með þeim hætti sem það hefur gert undan­farna daga og vikur. Að ó­breyttu verður málið því tekið fyrir föstu­daginn 23. ágúst kl. 10:15.

For­saga málsins:

For­saga málsins er sú að kaup­endur undir­rituðum kaup­samning að íbúð að Ár­skógum við Fé­lag eldri borgara fyrr á þessu ári. Af­hendingu var fyrst lofað í júní en var svo í­trekað frestað og á­stæðan sögð vera tafir á öryggis­út­tekt af hálfu Reykja­víkur­borgar. Þegar kom að loka af­hendingar­degi sam­kvæmt kaup­samningi 31. júlí náðist ekki í for­svars­menn FEB. Degi eftir lög­giltan af­hendingar­dag voru kaup­endur loks boðaðir á fast­eigna­söluna Torg undir því yfir­skyni að lyklar yrðu af­hentir. Þeir mætu því grun­lausir á fundinn um það sem koma skyldi. Á fundinum eru lagðir fram tveir afar­kostir, annars vegar að þeir skrifuðu undir ein­hliða við­auka við kaup­samning um rúm­lega 10% hækkun á kaup­verði í­búðarinnar og hins vegar að þeir féllu frá kaupunum. Hvort tveggja afar vondir kostir fyrir kaup­endurna þar sem þeir af­hentu lyklana af sinni íbúð þennan sama dag og vorum því heimilis­lausir. Þetta var FEB full­ljóst enda nýttu for­svars­menn fé­lagsins sér þessar upp­lýsingar og kölluðu þá fyrsta á fund þá sem þeir vissu að voru komnir á götuna og væru því lík­legastir til að ganga strax að þessum afar­kostum. Jafn­framt var kaup­endunum tjáð að þeir mættu ekki tala um efni fundarins við nokkurn mann og alls ekki aðra kaup­endur. Þarna fóru strax að renna á þá tvær grímur.

Eftir að FEB hafði knúið þá sem í mestri neyð voru til að sam­þykkja rúm­lega 10% hækkun á kaup­verði hófst fjöl­miðla­á­róður fé­lagsins. Fluttar voru þær “gleði­fréttir” að fólk væri byrjað að streyma inn í nýju í­búðirnar sínar og allir hefðu fallist á þessar skil­mála­breytingar en tveir væru að hugsa málið. Upp­lýsinga­gjöf frá FEB hefur síðan þá verið af mjög skornum skammti og þá einkum í gegnum fjöl­miðla. Engin gögn eða aðrar upp­lýsingar um á­stæður þessarar fram­úr­keyrslu hafa verið lögð fram. Kaup­endurnir eru enn tæpum mánuði seinna al­gjör­lega í myrkrinu.

Á­róðurinn heldur svo á­fram næstu daga þar sem þeim kaup­endum sem óska eftir frekari gögnum áður en þeir skrifa undir afar­kosti er stillt upp sem ó­heiðar­legu fólki sem hafi það eitt að mark­miði að kné­setja Fé­lag eldri borgara. Fé­lag sem hefur það yfir­lýsta mark­mið að berjast fyrir hags­munum fé­lags­manna sinna og stuðla að fé­lags­legri virkni þeirra og vel­ferð er þar með farið í stríð við fé­lags­menn sína og niður­lægir þá á opin­berum vett­vangi.

Það er deginum ljósara að aldrei stóð annað til hjá Fé­lagi eldri borgara en að velta mis­tökum fé­lagsins yfir á kaup­endur enda kom sátta­til­boð fé­lagsins um 37% “af­slátt” ekki fram fyrr en tveir kaup­endur á­kváðu að höfða inn­setningar­mál til að krefjast af­hendingar eigna sinna. Síðan þá hefur varið milljónum í ráð­gjöf frá al­manna­tengsla­sér­fræðingum, fjár­mála­sér­fræðingum og lög­fræðingum með það eitt að mark­miði að sverta æru heiðar­legra eldri borgara og hræða þá til að gangast undir afar­kosti.

Nýjasta út­spil Fé­lags eldri borgara var svo hótun um að hafa í­búðirnar af kaup­endum með því að virkja kaup­rétt í lóða­leigu­samningi.