Julian Assange, stofnandi Wikileaks braut oft á samkomulagi hans við Ekvador um hælisveitingu í sendiráðinu og reyndi að nota sendiráðið sem miðstöð fyrir njósnir. Forseti Ekvador, Lenin Moreno, greinir frá því í viðtali við breska miðilinn Guardian.

Lögreglan í London dró Assange út úr sendiráðinu síðasta fimmtudag eftir að ekvadorsk yfirvöld tilkynnti að þau hefðu svipt hann hæli eftir að hann hafði verið undir þeirra verndarvæng í sendiráði þeirra í London í sjö ár og þannig opnað fyrr það að bresk yfirvöld framselji hann til Bandaríkjanna en þar er hann sakaður um „samsæri um tölvuinnbrot“ í samskiptum sínum við Chelsea Manning.

Samkvæmt frétt Guardianákváðu yfirvöld í Ekvador að svipta hann hæli eftir að þau sökuðu Assange um að leka upplýsingum um persónulegt líf forsetans og fjölskyldu hans.

Moreno neitaði því í viðtali við Guardian að hann hefði svipt Assange hæli í hefndarskyni. Moreno sagði að honum þyki leiðinlegt að Assange hafi notað sendiráðið til að blanda sér í málefni annarra lýðræðisríkja.

„Allar tilraunir til að veikja eru vítaverðar fyrir Ekvador, því við erum fullvalda ríki og virðum stjórnmál hvers ríkis,“ sagði Moreno í viðtali við Guardian.

„Við getum ekki leyft okkar húsi, húsi sem opnað dyr sínar, að verða miðstöð fyrir njósnir,“ sagði Moreno einnig við Guardian.

Moreno tók það fram í viðtalinu að bresk yfirvöld hafi fullvissað hann um að mannréttindi Assange verði virt og að hann verði ekki sendur neitt þar sem hann gæti átt yfir höfði sér dauðarefsingu.

Bandaríkin eru þó ekki eina landið þar sem mál er höfðað gegn Assange því í Svíþjóð hefur Assange verið sakaður um nauðgun. Lögfræðingur konunnar sem sakaði hann um kynferðislegt ofbeldi greindi frá því fyrir helgi að hún ætlaði að reyna að fá málið opnað á ný.

Stuðningsfólk Assange hefur sakað Ekvador um að svíkja Assange að beiðni yfirvalda í Bandaríkjunum. Þau segja að það sé ólöglegt hvernig hann var sviptur hæli og að það setji svartan blett á frelsi fjölmiðla.