Óstaðfestar fregnir herma að Jamal Khashoggi hafi verið pyntaður áður en hann var myrtur á ræðisskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl á þriðjudag. Ýmsir miðlar hafa greint frá þessu.

Reuters hefur eftir tveimur tyrkneskum yfirmönnum, þar af talsmanni ríkisstjórnarinnar, að Khashoggi, sem var blaðamaður Washington Post og hafði haldið uppi mjög harðri gagnrýni á konungsfjölskyldunni í Sádi-Arabíu, hafi verið myrtur. Sumir heimildarmanna Reuters hafa sagt að þeir viti til þess að hann hafi verið pyntaður áður en hann var drepinn. Lík hans hafi því næst verið sundurlimað og flutt á brott. Myndbandsupptaka sé til af ódæðinu, til að hægt sé að sanna fyrir yfirboðurum að Khashoggi hafi verið komið fyrir kattarnef. Þetta hefur þó ekki fengist staðfest.

Fram kemur á vef Guardian að fimmtán Sádar hafi framkvæmd ódæðið. Þeir hafi komið til landsins á þriðjudag og haldið heim á leið seinna sama dag.

Búist er við því að Recep Tayyip sendi frá sér yfirlýsingu í dag vegna atviksins. Stjórnvöld í Sádi-Arabíu segjast ekkert vita um afdrif Khashoggi. Hann hafi yfirgefið ræðisskrifstofuna fljótlega eftir að hann kom þangað, til að sækja skilnaðarpappíra. Það stangast á við frásögn verðandi eiginkonu hans, sem beið hans í ellefu klukkustundir fyrir utan.