Guðmundur Freyr Magnússon, sem er í haldi spænsku lögreglunnar í bænum Torrevieja á Spáni er sagður hafa brotið sér leið inn á heimili móður sinnar og banað þar sambýlismanni hennar með hnífi.

Kristín Guðmundsdóttir, móðir Guðmundar, segir að harmleikurinn hafi átt sér stað á þriðja tímanum aðfaranótt sunnudags.

Er Kristín afar ósátt við fréttaflutning spænska miðilsins Informacion. Bæði Morgunblaðið og Ríkissjónvarpið vitnuðu í Informacion.

Í samtali við Fréttablaðið gagnrýnir Kristín frásögn Informacion og Morgunblaðið fyrir að leita ekki svara hjá henni áður en fréttin var birt á mbl.is. Informacion segir Guðmund hafa klifrað yfir vegg og komist inn á heimili Kristínar og sambýlismanns hennar. Komið hafi til átaka sem endað hafi með því að sambýlismaðurinn hafi fallið á rúðu og hún brotnað. Við það hafi hann hlotið fjölda áverka og látist. Þá segir Informacion að eftir rannsókn lögreglu sé vitnisburður Kristínar ekki talinn standast.

Kristín segir Informacion fara með rangt mál. Sonur hennar hafi kastað 14 kílóa gaskút í gegn um rúðuna og síðan ruðst inn í húsið vopnaður hnífi og ýtt sambýlismanni hennar í gólfið og síðan lagt ítrekað til hans með vopninu. Það hafi orðið honum að bana.

Að sögn Kristínar voru glerbrot á víð og dreif um íbúðina. Sambýlismaður hennar hafi skorist er hann reyndi að verjast Guðmundi. Kristín segir sambýlismann sinn hafa látist í fangi hennar.

Kristín segir son hennar ekki hafa náð að flýja af vettvangi og verið handtekinn. Hún hrósar lögregluþjónunum sem komu fyrstir á vettvang.

„Einn þeirra tók utan um mig og hann grét með mér. Annar færði mér kex og kaffi. Þetta fékk mikið á þá,“ segir Kristín sem kveður sumt í málflutningi spænsku lögreglunnar fráleitt.

„Það áttu sér engin átök stað. Sonur minn hafði hann undir á skömmum tíma,“ segir Kristín. Skýrsla var tekin af henni í gær og hún á að mæta aftur klukkan tíu fyrir hádegi í dag.

„Við vorum í sambúð í tvö ár. Hann var yndislegur og góður maður,“ segir Kristín sem kveðst vart geta lýst sorginni sem hún glímir við. „Hann átti systkini, börn og barnabörn sem ég finn svo mikið til með.“

Kristín segir Guðmund hafa áður ráðist á sambýlismanninn sem hafi fengið höfuðhögg og lagst inn á spítala. Þá hafi Guðmundur verið úrskurðaður í nálgunarbann.

Árið 2007 var Guðmundur dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir íkveikju. Þá hlaut hann fangelsisdóm í fyrra og beið afplánunar.