Stundin og DV birtu bæði fréttir í kvöld upp úr samtali nokkurra þingmanna Miðflokksins og Flokkifólksins úr upptökum sem gerðar voru, án vitneskju þingmannana, á kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur þar sem þingmennirnir sátu á spjalli. 

Þar er Gunnar Bragi, fyrrum utanríkisráðherra, meðal annars sagður hafa upplýst um það að hann hafi skipað sendiherra úr röðum Vinstri Grænna, með það að markmiði að draga athygli frá skipan Geirs H. Haarde. Þá eru þingmenn Miðflokksins sagðir hafa farið ófögrum orðum um Ingu Sæland, formann Flokks fólksins. 

Leynilegar upptökur á kaffihúsi 

Báðir miðlarnir vísa í leynilegar upptökur sem gerðar voru án vitundar þingmannanna á Klaustri, bar hótels Kvosin í miðbæ Reykjavíkur fyrr í mánuðinum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og þingmaður Miðflokksins, Anna Kolbrún Árnadóttir og Bergþór Ólason, þingmenn flokksins auk Ólafs Ísleifssonar og Karls Gauta Hjaltasonar, þingmanna Flokks fólksins, eru sögð hafa verið viðstödd. 

Þá eru þingmenn Miðflokksins sakaðir um að hafa reynt að fá Ólaf og Karl Gauta frá Flokki fólksins til þess að ganga til liðs við sig. „Þú verður þingflokksformaður við erum að fara redda þér inn. Ég er ekki að grínast. Ég veit að ég er búinn að drekka töluvert bjór en ég er til í að gera þetta á morgun,“ hefur DV eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins. 

Nokkrir þingmenn Miðflokksins eru einnig sagðir hafa kallað Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, ýmsum uppnefnum á upptökunni og er Bergþór Ólason sagður hafa sagt Ingu vera „fokking trylla“ og „húrrandi klikkaða kuntu.“

Slapp í gegn eins og smjör á smokk

Sem fyrr segir er Gunnar Bragi, fyrrum utanríkisráðherra, sagður hafa sagst hafa skipað Árna Þór Sigurðsson, fyrrverandi þingmann,VG og Geir H. Haarde sem sendiherra á sama tíma. Í upptökunni er Gunnar Bragði sagður hafa játað að skipun Árna Þórs hafi verið í kjölfar þeirrar ákvörðunnar að Geir var skipaður sendiherra í Bandaríkjunum. 

„Þegar ég ákvað það að skipa Geir H. Haarde sendiherra í Washington […] þá ræddi ég við Sigurð Inga. Honum var ekki skemmt enda hafði hann ákært Geir. Ég ræddi þetta auðvitað við alla flokka. Ég sá það að ég gæti ekki skipað Geir einn. Það yrði of þungur biti fyrir þingið og alla. Það sem ég gerði var að skipa Árna Þór (Sigurðsson) sem sendiherra.  Hann er náttúrulega bara […], þó hann sé frændi minn. VG hefðu getað orðið brjálaðir en Katrín sagði ekki orð. Ég átti fund með henni. Geir slapp í gegnum þetta eins og smjör á smokknum hjá honum þarna Friðriki Ómari,“ hefur DV eftur Gunnari Braga.