Efling þarf að greiða fyrrverandi starfsmönnum sínum tæpar þrjár milljónir í miskabætur vegna aðgerða og orða sem fylgdu uppsögnum þeirra 2019 og 2020. Kröfur starfsmannanna þriggja hljóðuðu samtals upp á um 66 milljónir vegna uppsagnar þeirra en dómstóllinn fellst ekki á að greiða svo háar bætur vegna starfsmannamála. Starfsmennirnir eru Elín Hanna Kjartansdóttir, fyrrverandi bókari, Kristjana O. Valgeirsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri, og Anna Lísa Terrazas, sem var almennur starfsmaður
Dómarnir þrír eru aðgengilegir á vef héraðsdóms en í þeim er fjallað ítarlega um umfjöllun í til dæmis fjölmiðlum í öllum málunum þremur og segir sem dæmi í einum þeirra að stefndi, Efling, hafi með offari farið með saknæmum og ólögmætum hætti gagnvart starfsmanninum.
Í öðrum er því lýst hvernig, eftir að starfsmanni var sagt upp, hafi henni verið staðið yfir henni á meðan hún tók saman eigur sínar og var svo fylgt niður í bílakjallara þar sem hún afhenti lykla og aðgangskort að vinnustaðnum.
„Þetta var gert að morgni dags þegar allir starfsmenn voru mættir til starfa og búið að boða þá til starfsmannafundar. Urðu þónokkrir starfsmenn vitni að því að verið var að fylgja stefnanda á dyr eftir uppsögn,“ segir í dómi en á þessum tíma hafði hún unnið hjá Eflingu í tólf ár. Þessi aðferð er sögð mjög meiðandi og að með þessari framkvæmd hafi það verið látið líta út eins og að tilefni hafi verið til að vísa henni fyrirvaralaust úr starfi. Hún átti því rétt á miskabótum.
Í þeim þriðja er fjallað um bæði áminningu starfsmanns árið 2018 og svo uppsögnárið 2020 en starfsmaðurinn heldur því fram að aðför hafi verið gerð að henni sem hafi leitt til þess að hún fékk áminningu en hún var áminnt fyrir að greina frá fyrirhuguðum starfslokum annars starfsmanns.
„Þær ásakanir hafi verið rangar og settar fram sem átylla til að koma stefnanda frá störfum án þess að kjarasamningsbundin réttindi hennar væru virt. Með ásökununum hafi verið vegið að heiðri hennar með lítilsvirðandi og niðrandi framkomu. Athafnir forsvarsmanna stefnda hafi falið í sér áfellisdóm yfir störfum hennar í þágu stefnanda án tilefnis eða haldbærra skýringa. Þá hafi hún verið útilokuð frá vinnustaðnum og orðið fyrir einelti. Það hafi aukið á áfall stefnanda og gert það enn þungbærara að málefni hennar hafi fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum og forsvarsmenn stefnda látið að því liggja í þeirri umfjöllun að stefnandi hefði brotið af sér í starfi,“ segir í dómi og að í kjölfarið hafi hún þurft að leita sér aðstoðar læknis og sálfræðinga til að vinna úr þeim áföllum sem hún varð fyrir.
Samkvæmt dómi var henni veitt áminning án lögmæts tilefnis og er sérstaklega í dómi minnst á að starfsmaðurinn átti á þessum tíma við andlega erfiðleika að stríða.
„Viðbrögð stefnda voru langt umfram það tilefni að stefnandi hefði sagt frá væntum starfslokum náinnar samstarfskonu sinnar. Í þeim efnum fór stefndi offari. Verður því fallist á að stefnandi eigi rétt á miskabótum enda áfall stefnanda vegna framgöngu stefnda augljóst í ljósi langvinnra veikinda hennar,“ segir í dómi.