Kennari sem sagt var upp hjá Breiðholtsskóla vegna þess að hún er orðin sjötug stefnir Degi B. Eggertssyni fyrir hönd Reykjavíkurborgar og krefst þess að uppsögnin verði dæmd ógild eða að hún fái eina og hálfa milljón króna í miskabætur og að borgin verði dæmd skaðabótaskyld.

„Vorið 2019 tilkynnti skólastjóri Breiðholtsskóla stefnanda að starfslok hennar yrðu þegar skólaárinu lyki. Ástæða starfslokanna var einungis sú að stefnandi væri orðin 70 ára gömul,“ segir í stefnu Daníels Isebarn Ágústssonar, lögmanns Landssambands eldri borgara, sem rekur málið.

Lögmaðurinn segir uppsögnina byggja á því ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem kveði á um að starfsmanni skuli jafnan segja upp störfum frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann verður sjötugur. „Framangreind lög eiga þó ekki við um aðila þessa máls þar sem stefnandi er ekki starfsmaður ríkisins,“ segir í stefnunni. Því byggi uppsögnin ekki á fullnægjandi lagagrundvelli

Í stefnunni er vikið að því að samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Félags grunnskólakennara eigi starfsmaður að láta af starfi þegar hann er fullra sjötíu ára án sérstakrar uppsagnar. Þetta ákvæði sé hins vegar ólögmætt því það brjóti gegn æðri réttindum konunnar sem njóti stjórnarskrárverndar. „Til þess að mögulegt væri að skerða mannréttindi hennar þyrfti lög frá Alþingi en ákvæði kjarasamnings duga ekki til,“ segir lögmaðurinn.

Þá segir lögmaðurinn að jafnvel þótt talið væri að fullnægjandi lagastoð væri til staðar þurfi einnig málefnalegar forsendur fyrir því að skerða réttindi með því að þvinga fram starfslok kennarans.

Að sögn lögmannsins er aldur ekki málefnalegt sjónarmið þegar rætt er um störf. „Aldur segir enda ekkert til um það hversu hæfur viðkomandi einstaklingur er til þess að sinna tilteknu starfi. Það er því ómálefnalegt að ákveða að 70 ára fólk geti ekki sinnt starfi af þeirri einu ástæðu að það er orðið 70 ára,“ segir í stefnunni þar sem undirstrikað er að sjötíu ára reglan eigi ekki við um alla starfsmenn hins opinbera og því sé um mismunun að ræða.

Starfsréttindi eru eign sem nýtur verndar stjórnarskrár að sögn lögmannsins. Jafnvel þótt heimilt væri að skerða slík réttindi þurfi að gæta meðalhófs. „Ákvörðunin gengur eins langt og harkalega og mögulegt er og skerðir réttindi starfsmanns að öllu leyti án

nokkurrar málefnalegrar ástæðu,“ segir lögmaðurinn. Ákvörðunin sé andstæð markmiðum í skólakerfinu því hún feli í sér að hæfum og faglærðum kennara sé sagt upp. „Skortur er á faglærðum kennurum og ólíklegt að jafnhæfur kennari fáist til að fylla skarð stefnanda.“

Viðkomandi kennari kveðst ekki vilja tjá sig um málareksturinn að svo stöddu og ekki náðist í Þórunni Sveinbjörnsdóttur, formann Landssambands eldri borgara.