Þorkell Ingimarsson, skólastjóri í Víkurskóla í Vík í Mýrdal, mun láta af störfum um næstu mánaðamót eftir að sveitarstjórn Mýrdalshrepps lét gera sálfélagslega úttekt á líðan starfsfólks í skólanum. Talsverð ólga hefur verið við skólann það sem af er árs að því er fram kemur í tilkynningu á vef Mýrdalshrepps.

„Niðurstaða sveitarstjórnar eftir yfirferð þeirrar úttektar var sú að ekki yrði hjá því komist að breyta um yfirstjórn í skólanum,“ segir í tilkynningunni.

Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, vildi litlu bæta við tilkynninguna í samtali við Fréttablaðið en staðfesti að óánægja hefði verið með ákveðna þætti hjá yfirstjórn skólans. Ráðist hefði verið í úttekt á líðan starfsfólks í skólanum eftir ábendingar og niðurstaðan verið sú að Þorkell léti af störfum.

„Alltaf þegar svona mál koma upp þá eru þau viðkvæm og erfitt að tala um þau,“ segir Ásgeir.