Guð­rúnu Jóns­dóttur var sagt upp störfum í Safna­húsi Borgar­fjarðar í gær en hún hafði ný­lega lagt fram ein­eltis­kvörtun á hendur sveitar­stjóra Borgar­byggðar. Guð­rún hafði gegnt starfi for­stöðu­manns safna­hússins í fimm­tán ár. Hún til­kynnir sjálf um upp­sögnina á Fac­book-síðu sinni.

„Sú á­kvörðun er mér þung­bær enda var það gert í kjöl­far þess að ég lagði fram ein­eltis­kvörtun á hendur sveitar­stjóra vegna ó­rétt­mætrar fram­komu hennar í minn garð og í kjöl­far þess að ég höfðaði dóms­mál gegn Borgar­byggð þar sem ég taldi að á mér væri brotinn réttur sem starfs­manni,“ segir hún meðal annars í færslunni.

Þór­dís Sif Sigurðar­dóttir, sveitar­stjóri Borgar­byggðar, svaraði þessum á­sökunum á Face­book-síðu sinni án þess þó að nefna um hvern málið snerist. Hún hafnar al­farið á­sökunum um ein­elti.

„Undan­farnir dagar hafa verið mér erfiðir. Ég hef verið á­sökuð um ein­elti í starfi mínu sem sveitar­stjóri gagn­vart starfs­manni. Mér þykir miður að starfs­maðurinn hafi upp­lifað ein­elti af minni hálfu,“ segir Þór­dís í færslunni. „Ég hef það að leiðar­ljósi, í starfi mínu og lífinu al­mennt, að gæta jafn­ræðis, stuðla að góðum sam­skiptum, taka á vanda­sömum málum og hrein­skilni er mér sér­stak­lega hug­leikin.“

Hún segist í færslunni ekki geta tjáð sig um málið í efnis­at­riðum þar sem hún sé bundin þagnar­skyldu sem sveitar­stjóri. Hún á­réttar þó að málið sé í far­vegi þar sem allt sé upp á borðum.