Persónuvernd barst kvörtun í byrjun mars frá konu sem taldi vinnuveitanda hafa brotið persónuverndarlög með því að nota „illa fengin“ einkaskilaboð til að segja henni upp störfum.

Að hennar sögn vörðuðu skilaboðin samstarfsmenn og voru þau aðgengileg í ólæstri tölvu á vinnustaðnum.

Þó hafi verið um gömul skilaboð að ræða og því þurft að hafa fyrir því að finna þau í tölvunni.

Sagt upp ríflega ári síðar

Í kvörtuninni sakar konan fyrrverandi yfirmann sinn um að hafa ýmist tekið skjáskot af umræddum skilaboðum sem hún sendi til annars aðila eða tekið við afriti frá einhverjum og varðveitt.

Ríflega ári síðar hafi skilaboðin síðan verið notuð gegn kvartanda með þeim afleiðingum að henni var sagt upp störfum.

„Fjallað á ofbeldisfullan og meiðandi hátt um tiltekna starfsmenn“

Persónuvernd leitaði til umrædds stjórnanda sem hafnaði ásökununum.

Í svari sínu sagði hann að tölvan sem kvartandi hafi notað til að senda umrædd skilaboð hafi verið á opnu svæði þar sem væri talsverður umgangur starfsmanna, hún hafi skilið tölvuna eftir ólæsta og að skilaboðin hafi verið sýnileg þeim sem leið áttu um svæðið.

Aðrir starfsmenn hafi í kjölfarið kvartað til yfirmanna sinna vegna skilaboðanna þar sem hafi verið „fjallað á ofbeldisfullan og meiðandi hátt um tiltekna starfsmenn“ fyrirtækisins.

Viðtakandi skilaboðanna hafi síðar staðfest innihald þeirra á fundi með stjórnandanum.

Persónuvernd tók ekki afstöðu

Að hans sögn hafi hann því ekki tekið, átt, varðveitt eða fengið afrit af umræddum skilaboðum og segir engin gögn vera til um málið önnur en frásögn móttakanda og fyrrgreindar kvartanir starfsmanna.

Í ljósi þess að orð stóð gegn orði í málinu ályktaði Persónuvernd að stofnunin hefði ekki forsendur til að taka afstöðu til þess hvort stjórnandinn hafi brotið á rétti konunnar með óleyfilegri meðhöndlun persónuupplýsinga.