Kona, sem handtekinn var vegna bruna á Selfossi, sagði lögreglu að maður, sem einnig var handtekinn í tengslum við málið, hafi kveikt í gardínum á neðri hæð hússins. 

Tveir létust í brunanum, karl og kona sem voru á efri hæð hússins, sem er stórskemmt. Lögreglustjórinn á Suðurlandi taldi að úrskurða ætti konuna í áframhaldandi gæsluvarðhald en Landsréttur felldi úrskurð Héraðsdóms Suðurlands úr gildi. 

Hellti bjór yfir brennandi pítsakassa

Í úrskurði Landsréttar er vitnað í yfirheyrslu á konunni, en þar sem hú segir manninn hafa kveikt í pítsakössum á stofugólfi neðri hæðar hússins. Kvaðst hún hafa skammað manninn og hellt bjór yfir kassana til að slökkva eldinn.

Í framhaldinu hafi annað hinna látnu komið niður og átt í orðaskiptum eða rifrildi við manninn, en síðan snúið aftur á efri hæð hússins. Sagði hún manninn hafa síðan lagt eld með kveikjara að gardínum aftan við sófa í stofunni. 

Segist hafa farið í „black out“

Þá kvaðst konan hafa farið í svokallað „black out“ og ekki muna eftir neinu fyrr en hún var komin út úr húsinu með manninum. Samkvæmt því sem fram kemur í úrskurðinum er rannsókn málsins á frumstigi. Við yfirheyrslu sagðist maðurinn muna óljóst eftir því að hafa kveikt eld í pappakassa í stofunni. Atvik muni hann óljóst en skyldilega hafi eldur verið kominn út um allt. 

Héraðsdómur Suðurlands féllst sem fyrr segir á kröfu lögreglustjórans á Suðurlandi en í niðurstöðu dómsins kemur fram að í skýrslutöku hafi komið skýrt fram að konan hafi verið kunnugt um að fólkið var á efri hæð hússins þegar eldur logaði í pappakössum á stofugólfi og í gardínunum.  

Ekki unnt að senda inn reykkafara

Lögreglu barst tilkynning klukkan 15:53 miðvikudaginn 31. október síðastliðinn um að eldur væri laus í framangreindu íbúðarhúsi. Þegar lögregla kom á vettvang var mikill eldur í húsinu og tjáði fólkið viðbragðsaðilum að tveir væru á efri hæð hússins. Hins vegar var ekki unnt að senda reykkafara inn í húsið sökum mikils elds og hita. 

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að fólkið hafi sjáanlega verið í annarlegu ástandi og konan hafi af eigin frumkvæði að maðurinn hafi kveikt í húsinu. Voru þau bæði handtekin á vettvangi. 

Fréttin hefur verið uppfærð.