Sjúkrahúsið Kaiser Permanente Medical Center í borginni Fremont rétt hjá San Fransisco hefur verið harðlega gagnrýnt eftir að læknir á sjúkrahúsinu bar sjúklingi þau tíðindi að hann væri dauðvona í gegnum svokallað myndbandsvélmenni, að því er BBC greinir frá.

Umræddur sjúklingur, hinn 78 ára gamli Ernest Quintana, lést daginn eftir tíðindin. Fjölskylduvinur, Julianne Spangler, tjáir sig um atvikið á Facebook síðu sinni en hún segir það sýna fram á hvernig ekki eigi að nýta tæknina við umönnun sjúklinga. Ekki kemur fram hvar umræddur læknir var staddur.

„Framfarir í læknavísindum eru frábærar en spurninginu um „hvar“ og „hvenær“ þarf að vera algjörlega á hreinu,“ en auk þess lýsir barnabarn Quintana, Annalisa Wilharm, atvikinu sem ákaflega furðulegu. 

„Ég lít upp og það er vélmenni í dyrunum,“ segir Wilharm í samtali við BBC en hún segir „það hafa litið út eins og hann sæti í stól einhversstaðar.“

„Það næsta sem ég veit er að hann er að segja honum að hann hafi fengið þessar sneiðmyndir til baka og að það hafi ekki verið nein lungu eftir og ekkert sem virkaði. Ég reyndi bara mitt besta til að gráta ekki og öskra af því að þetta var bara ég og hann og eiginkonan hans var ekki einu sinni þarna.“

Í tilkynningu frá varaforseta stjórnar spítalans Michelle Gaskill-Hames kemur fram að sjúkrahúsið hvetji ekki starfsfólk sitt til að nýta sér umrædda tækni í stað þess að eiga í persónulegum samskiptum við sjúklinga á erfiðum tímum. Sjúkrahúsið muni fara yfir verklag í slíkum málum í kjölfarið.