„Þegar Íslendingar þurfa að segja eitthvað en hafa ekki frá neinu að segja er venjan sú að tala um veðrið, sú hefð birtist nú í stefnuræðu forsætisráðherra,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins á Alþingi í kvöld. Katrín Jakobsdóttir fór með stefnuræðu sína í kvöld og fóru að henni lokinni fram umræður.   

Sigmundur fór nokkuð hörðum orðum um núverandi ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í ræðu sinn og sakaði hana um að hafa enga pólitíska sýn. 

Sagði ríkisstjórnin hafa verið myndaða til að skipta ráðherrastólum

„Við vitum öll hvers vegna þessi ríkisstjórn er mynduð, eingöngu til að skipta á milli sín ráðherrastólum og koma í veg fyrir að samstarfsflokkarnir hrindi kosningaloforðum sínum í framkvæmd.“

Sigmundur sagði þó að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefði þó nefnt ýmis göfug markmið í stefnuræðu sinni en gagnrýndi hana fyrir að tala „í hátíðarræðu stíl um fallega hluti sem allir geta verið sammála um.“ Þá sakaði hann Katrínu um að stela stolnum fjöðrum er hún ræddi um jafnlaunavottun og kvaðst minna að stjórnarandstöðuflokkurinn Viðreisn hafi átt veg að vanda af því.

Met í útþenslu

„Ríkisstjórn sem hefur aðeins starfað í 9 mánuði hefur nú, með nýju fjárlagafrumvarpi, á 100 ára afmæli fullveldisins, slegið 100 ára met í útþenslu báknsins,“ sagði Sigmundur og gagnrýndi nýtt fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2019 sem kynnt var í gær.

Þá sagði Sigmundur ríkisstjórnina standa að metútgjaldaaukningu, sem hann segir fóðra gallað kerfi og auka vandann. „En þó stjórnin hafi verið mynduð sem hræðslubandalag og til að stoppa af stefnumál samstarfsflokkana virðast ráðherrar Vinstri grænna ekki hafa fengið minnisblaðið, eða verið alveg sama um það.“

Skipta út fyrir „marxísku leiðina.“

Sigmundur tók einnig fyrir heilbrigðismál og sagði Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra vera á góðri leið að skipta íslensku heilbrigðiskerfi út fyrir „marxísku leiðina.“ Hann sagði afleiðinguna vera tvöfalt heilbrigðiskerfi, þar sem þeir hafa efni á því greiða sjálfir fyrir þjónustuna. Hann gagnrýndi einnig aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar um heilbrigðisþjónustuna mest snúast um bönn og árangursríkar sýndaraðgerðir. 

Sigmundur ræddi einnig Framsóknarflokkinn, sem hann tilheyrði áður en hann stofnaði Miðflokkinn. „Það hefur tekið á að fylgjast með því hvernig flokkurinn hefur að undanförnu gefið eftir öll stærstu loforðin sem hann veitti kjósendum sínum og þingmenn jafnvel leitast við að gera lítið úr þeim.“ Þá sagði Sigmundur það vera átakanlegast að sjá svikin við landsbyggðina. 

„Þrátt fyr­ir að hafa haft ýms­ar áhyggj­ur af þess­ari rík­is­stjórn trúði ég því þó að hún væri skárri kost­ur en sum­ir aðrir fyr­ir bænd­ur og byggðir lands­ins. Það er öðru nær,“ sagði Sig­mund­ur.

„Þetta er lýsandi því við erum með ríkisstjórn sem snýst bara um eitt hún snýst bara um sjálfa sig.“