Ekki er enn vitað hvað manninum sem skaut tvo til bana og særði rúm­lega tuttugu manns fyrir utan hinsegin bar stóð til, lög­reglan í Osló rann­sakar málið sem pólitískt of­beldi og haturs­glæp en úti­lokar ekki að at­hæfið tengist heilsu hans. Norska ríkis­út­varpið greinir frá þessu.

Maðurinn, sem heitir Zaniar Matapour og er 42 ára, hefur áður komið til kasta lög­reglunnar í Osló. Matapour er sagður koma frá rót­tæku ís­lömsku um­hverfi í Osló, en lög­reglan rann­sakar einnig hversu um­fangs­mikil á­hrif þetta um­hverfi kunni að hafa haft á hann.

Fólk lagði blóm og regnbogafána fyrir utan hinsegin barinn þar sem árásarmaðurinn skaut tvo til bana.
Fréttablaðið/Getty

Arfan Bhatti er þekktur rót­tækur íslam­isti en Matapour lög­reglan hefur til rann­sóknar hvort þeir hafi verið í sam­skiptum fyrir á­rásina. Rétt rúm­lega viku fyrir á­rásina setti Bhatti inn færslu á Face­book þar sem hann boðaði dráp á sam­kyn­hneigðum. Hann setti þá inn mynd af brennandi regn­boga­fána með til­vitnun frá Kóraninum.

Til­vitnunin er notuð af rót­tækum íslam­istum til þess að rétt­læta dauða­refsingu fyrir sam­kyn­hneigð.

Ein­staklingarnir sem létust í á­rásinni voru tveir karl­menn, annar á sex­tugs­aldri og hinn á sjö­tugs­aldri. Gleði­ganga Oslóar, Oslo Pride, átti að fara fram í gær en var af­lýst vegna skot­á­rásarinnar að ráðum lög­reglu.