Lög­reglu­yfir­völd í Kanada hand­tóku í gær­kvöldi My­les Sander­son, annan þeirra sem talinn er bera á­byrgð á dauða tíu manns í hrinu hnífa­á­rása á sunnu­dag. Hann svipti sig svo lífi í haldi lög­reglu skömmu eftir að hann var hand­tekinn.

Lög­regla hafði leitað að My­les síðustu daga og var hann hand­tekinn á þjóð­vegi eftir eftir­för lög­reglu í Saskatchewan-héraði í suður­hluta landsins. Bróðir hans, Damien, fannst látinn á mánu­dag en hann er einnig grunaður um að hafa tekið þátt í ó­dæðinu.

Lög­regla hefur ekki viljað gefa upp um hvað gerðist í kjöl­far hand­tökunnar. Breska ríkis­út­varpið, BBC, hefur eftir ó­nafn­greinum heimildar­manni innan lög­reglunnar að My­les hafi svipt sig lífi eftir að hann var hand­tekinn.

Auk þeirra tíu sem létust særðust ní­tján í á­rásunum og eru tíu þeirra enn á sjúkra­húsi, þar af þrír al­var­lega slasaðir.

Lög­regla fékk til­kynningu um vopnaðan mann síð­degis í gær sem hafði stolið bif­reið. Lög­regla veitti bif­reiðinni eftir­för og reyndi My­les að stinga lög­reglu af. Lög­reglu­mönnum tókst að þvinga öku­tækið út af veginum og var My­les hand­tekinn í kjöl­farið. Hann var svo fluttur á sjúkra­hús þar sem hann var úr­skurðaður látinn í gær­kvöldi.