Samkvæmt spænska blaðamanninum Raul Sánchez, sem fylgst hefur með máli íslensks manns, sem grunaður er um barnaníðingsbrot á Spáni, virðist sem maðurinn hafi fengið drengina til að ganga með tvo hunda sinn um þorpið og unnið sér þannig traust þeirra.
Spænska þjóðvarðliðið handtók 59 ára gamlan Íslending í Torre Pacheco, í nágrenni borgarinnar Murcia, fyrr í mánuðinum grunaðan um brot gegn átta smádrengjum.
Fyrir að labba með hundana er maðurinn sagður hafa greitt börnunum eina evru og síðan þegar þau hafi komið aftur á heimili hans með þá hafi hann sett klámfengið efni á í sjónvarpinu og reynt að káfa á þeim og fá þá til að snerta á sér kynfærin. Hann hafi boðið þeim fimm evrur fyrir að fá að snerta þá.
Spænska þjóðvarðliðið skoðar nú tölvur og farsíma í eigu mannsins og kannað er hvort hann hafi tekið upp brot sín. Nú þegar hefur fundist umtalsvert magn kláms og barnaníðsefnis í fórum hans.
Einnig hefur verið leitað aðstoðar Interpol en maðurinn bjó um tíma í Suður-Ameríku, til dæmis í Kólumbíu. Spænska lögreglan telur mögulegt að þar hafi hann einnig framið sambærileg brot. Einnig leitaði spænska lögreglan liðsinnis alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra við rannsókn málsins. Enn liggur ekki fyrir hvenær réttað verður yfir manninum.
Maðurinn var dæmdur af Hæstarétti árið 1994 fyrir brot gegn fjórum drengjum í Vestmannaeyjum. Þau framdi hann árin 1990 til 1992. Fórnarlömbin voru á aldrinum níu til tólf ára. Brotin sem hann gerðist sekur um í Vestmannaeyjum virðast vera af svipuðum toga og þau brot sem hann er nú sakaður um.
Fréttin hefur verið uppfærð.