Þegar ég er í með­ferðinni þá byrja ég svo með manninum mínum. Við höfðum verið vinir í mörg ár og ég var mjög opin með þetta allt við hann. Sagði honum á okkar fyrsta al­vöru stefnu­móti að ég ætlaði að eignast barn, hann gæti verið með ef hann vildi annars myndi ég finna sæðis­gjafa,“ segir Súsanna sem á þessum tíma var búin að missa allt hárið og var mjög veik af lyfjunum.

„Og ekki nóg með það þá sagði ég honum að ef hann vildi vera með þá vildi ég giftast honum. Ég gat ekki hugsað mér að vera með krabba­mein og barn en ó­gift,“ bætir hún við.
Arnar Gunnars­son, maðurinn sem um ræðir, tók þessu „eins og meistari,“ segir Súsanna. Þau giftu sig síðasta sumar og eiga saman hina fjögurra mánaða Aþenu. „Ég sagði honum hundrað sinnum að hann mætti hlaupa í burtu, það er lík­lega það sem ég hefði gert, þetta er rosa­legur pakki. En hann sagði mér að öllu fylgi ein­hvers­konar pakki, í okkar til­viki vissi hann alla­vega hvað hann ætti í vændum.“

Súsanna og Arnar byrjuðu í ferli hjá Livio stuttu eftir að þau byrjuðu saman og var ferlið erfitt, tíma­frekt og kostnaðar­samt. „Við fórum í þrjár með­ferðir hérna á Ís­landi sem kostuðu okkur ó­trú­lega mikið og tóku mikið á. Strax eftir aðra með­ferðina áttaði ég mig á því að vonin var ekki mikil og mér var sagt að undir­búa mig fyrir von­brigði,“ út­skýrir Súsanna sem gat þó sótt um styrk í neyðar­sjóð Krafts sem hún segir að hafi hjálpað þeim mikið.

Stöðugt limbó

Á meðan á ferlinu stóð var Súsanna í stöðugu „limbói“ varðandi veikindi sín og eftir fyrstu lyfja­með­ferðina liðu einungis nokkra vikur þar til aftur fannst krabba­mein. Hún var og hefur verið mikið síðan í lyfja-, geisla- og ljós­með­ferðum. „Ég vissi aldrei og veit aldrei hvað gerist í næstu sýna­töku ég vona bara alltaf að þetta sé bara nógu lítið því þá ráða ljósin við þetta.“

Eftir fjósemis­með­ferðirnar þrjár hér heima á Ís­landi sem ekki gengu upp á­kváðu Súsanna og Arnar að fara til Grikk­lands og sækja með­ferð þar. „Þarna höfðum við eytt öllum sparnaðinum okkar í með­ferðir og ferðin og með­ferðin til Grikk­lands kostaði 1.200 þúsund krónur. Það er náttúru­lega ó­trú­legt að þetta kerfi sé svona og ég sá mikið eftir sparnaðinum sem átti að fara í eitt­hvað allt annað en að reyna að eignast barn af því ég fékk krabba­mein, við áttum ekki krónu til að gera þetta,“ segir Súsanna.


Hún segist ævin­lega þakk­lát vin­konum sínum sem settu af stað söfnun á Face­book og söfnuðu 800 þúsund krónum fyrir ferðinni og með­ferðinni í Grikk­landi. „Mér finnst ó­trú­lega erfitt að þiggja og betla peninga en þetta var þess virði,“ segir Súsanna og vísar til þess að með­ferðin í Grikk­landi gekk upp og hún varð ó­létt af Aþenu.