Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt og komu fíkniefnamál meðal annars inn á borð hennar.
Um kvöldmatarleytið í gær fór lögregla í húsleit á heimili einstaklings í miðbæ Reykjavíkur. Í skeyti frá lögreglu kemur fram að maðurinn hafi verið kærður fyrir vörslu á kökum sem grunur leikur á að innihaldi kannabisefni.
Á sjötta tímanum í gærkvöldi var svo óskað eftir aðstoð lögreglu við að vísa fólki út af stigagangi sem hafði komið þangað til þess eins að neyta fíkniefna.
Lögreglumenn fengu svo tilkynningu um einstakling sem var sagður sofa fram á stýri bifreiðar. Þegar höfð voru afskipti af viðkomandi tjáði hann lögreglu að hann væri uppgefinn eftir próflestur liðinna daga og hefði verið að leggja sig áður en hann færi að versla í matinn.
Tveir menn voru svo handteknir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Að auki voru þeir sagðir hafa valdið skemmdum á bifreið sem ekki var talin í þeirra eigu. Voru mennirnir vistaðir í fangaklefa vegna rannsóknar málsins.