Á­tján ára gamall pakistanskur karl­maður hefur nú játað að hafa ráðist á tvo aðila með kjötexi fyrir utan byggingu þar sem tíma­ritið Charli­e Hebdo hafði áður að­setur. Maðurinn sagði við lög­reglu­menn að hann hafi verið reiður vegna endur­birtingar tíma­ritsins á skop­myndum af spá­manninum Múhameð.

Líkt og áður hefur komið fram særðust tveir al­var­lega í á­rásinni í gær, kona á þrí­tugs­aldri og karl­maður á fer­tugs­aldri, en sjö voru hand­teknir af lög­reglunni í París vegna málsins. Þau sem særðust eru starfs­menn fyrir­tækis sem fram­leiðir sjón­varps­efni en fyrir­tækið er nú með höfuð­stöðvar sínar þar sem Charli­e Hebdo var áður með höfuð­stöðvar sínar.

Lög­regla telur að um skipu­lagða árás hafi verið að ræða og er málið rann­sakað sem hryðju­verk. Að sögn innan­ríkis­ráð­herra Frakk­lands, Gérard Darmanin, kom maðurinn einn síns liðs frá Pakistan fyrir þremur árum og var ekki talið að maðurinn tengdist hryðju­verka­sam­tökum við komuna til landsins. Damanin segir þó ljóst að um hryðju­verka­á­rás sé að ræða.

Ákváðu að birta skopmyndirnar á ný vegna réttarhaldanna

Réttar­höld yfir ein­stak­lingum sem sakaðir eru um aðild að hryðju­verka­á­rásum í París árið 2015 hófust 2. septem­ber síðast­liðinn og er gert ráð fyrir að réttar­höldin standi yfir þar til um miðjan októ­ber. Meðal þess sem ein­staklingarnir eru á­kærðir fyrir er að hafa að­stoðað bræðurna C­hérif og Saïd Kou­achi við að fremja árás á skrif­stofu tíma­ritsins Charli­e Hebdo, sem varð tólf manns að bana.

Hundruð manns munu gefa skýrslu fyrir dómi, þar af 144 vitni og fjór­tán sér­fræði­vitni auk fjölda annarra, aðal­lega að­stand­enda þeirra sem létust í á­rásinni. Í til­efni réttar­haldanna á­kvað Charli­e Hebdo að birta skop­myndir af spá­manninum á ný og hafa margir, til að mynda Frakk­lands­for­seti, varið þá á­kvörðun tíma­ritsins.