Fer­tugur karl­maður frá Kali­forníu-ríki hefur nú játað að hafa myrt tvö ung börn sín en að því er kemur fram í frétt CNN um málið sagði maðurinn við rann­sóknar­mann hjá Al­ríkis­lög­reglu Banda­ríkjanna, FBI, að hann hafi þurft að drepa þau því „þau áttu eftir að alast upp til að vera skrímsli.“ Hann sagðist með­vitaður um að það hafi verið rangt að drepa börnin en sagði það „einu leiðina til að bjarga heiminum,“

Maðurinn, Matt­hew Taylor Coleman, var stöðvaður við landa­mærin milli Banda­ríkjanna og Mexíkó síðast­liðinn sunnu­dag og játaði þá að hafa myrt tíu mánaða dóttur sína og tveggja ára son sinn. Sam­kvæmt frétt CNN drap Coleman börnin í Mexíkó með spjót­byssu sem notuð er við veiðar.

CNN vísar til skjals sem lagt var fram af á­kæru­valdinu í Kali­forníu þar sem kemur fram að Coleman hafi talað um sam­særis­kenningar á borð við QA­non, sem nokkrir stuðningsmenn fyrrum forsetans Donalds Trump aðhyllast, og Illuminati, og að hann hafi fengið vitrun þess efnis að eigin­kona hans hafi verið með „snáka­erfða­efni,“ sem börn þeirra hafi einnig fengið.

Hélt ekki að börnin væru í hættu

Lög­regla hóf leit að Coleman eftir að eigin­kona hans til­kynnti að hann hafði tekið börnin síðast­liðinn laugar­dag og ekki gefið upp hvert hann væri að fara. Hún sagðist þó ekki óttast að líf barna þeirra væru í hættu heldur óskaði að­eins eftir því að lög­regla myndi tala við hann.

Lög­regla notaði for­ritið „Find My Phone“ til að hafa uppi á Coleman og kom þá í ljós að hann hafi síðast verið í Rosa­rito í Mexíkó við landa­mærin en Coleman var einn á ferð þegar lög­regla stöðvaði hann við landa­mærin síðast­liðinn sunnu­dag.

Lög­reglu­yfir­völd í Mexíkó hófu í kjöl­farið leit að líkum barnanna og morguninn eftir stað­festi lög­reglan í Rosa­rito að lík tveggja barna sem pössuðu við lýsinguna hefði fundist.