Maður hlaut í dag þrjátíu daga fangelsisdóm, skilorðsbundin til tveggja ára, í Héraðsdómi Reykjaness vegna líkamsárásar sem átti sér stað í verslun í Reykjanesbæ. Hann var ákæður fyrir að ráðast á annan mann, slá hann fjórum sinnum með krepptum hnefa í andlitið og veita honum hnéspark í kviðinn.

Brotaþolinn hlaut fyrir vikið tveggja sentímetra langan skurð fyrir neðan vinstra gagnauga, væga bólgu, roða og eymsli á höfði. Auk þess sem gleraugu hans brotnuðu.

Maðurinn játaði að hafa slegið hann fjórum sinnum í andlitið, en mundi ekki eftir hnésparkinu.

Atvkið sem málið varðar átti sér stað um nótt í marsmánuði á þessu ári. Það virðist liggja fyrir að brotaþolinn hafi verið undir áhrifum áfengis.

Þegar lögreglu bar að garði lýsti hann því fyrir henni að ung kona hefði reynt að ræða við hann, en hann hafi ekki haft áhuga á því. Í kjölfarið hafi hún skipað vinum sínum að ráðast á hann, sem þeir hafi gert fyrir utan verslunina. Þá lýsti hann árásarmönnunum sem „týpískum unglingum“.

Sakaði manninn um rasisma

Konan, sem maðurinn minntist á, sakaði manninn um að hafa verið dónalegan og sýnt af sér kynþáttafordóma. Það gerði hún bæði í samtali við lögreglu á vettvangi, sem og í framburði sínum fyrir dómi. Í síðara skiptið tók hún fram að meintir kynþáttafordómar hefðu beinst að afgreiðslustúlku verslunarinnar. Hún sagðist þekkja lauslega til hins ákærða.

Hinn ákærði sagði fyrir dómi að brotaþolinn hafi kallað stúlkur sem voru í versluninni og afgreiðslustúlku ýmsum ókvæðisorðum og viðhaft um þær niðrandi ummæli. Auk þess hafi hann sýnt af sér ógnandi hegðun.

Hann sagðist hafa beðið brotaþolann um að „slaka á“, sem hafi þá farið að fikta í hárinu á honum og síðan kýlt hann í höfuðið. Honum hafi brugðið, orðið hræddur, og brást við með því að kýla brotaþolann fjórum sinnum í andlitið. Hann sagðist iðrast gjörða sinna og eftir á að hyggja hefði hann betur brugðist við með hófstilltari hætti.

Afgreiðslustúlkan í versluninni var einnig vitni í málinu. Hún sagðist hafa skilið mennina tvo í sundur á meðan þeir tókust á. Hún sagðist ekki hafa orðið virni að óviðeigandi munnsöfnuði af hálfu brotaþola, hvorki í sinn garð né annara.

Verjandi ákærða bar fyrir sig að hann hefði beitt neyðarvörn í umrætt sinn, en dómari taldi ekki hægt að heimfæra það á verknaðinn. Líkt og áður segir hlaut maðurinn þrjátíu daga fangelsisdóm, skilorðsbundin til tveggja ára.