Farþegi strætó stóð í stappi við vagnstjóra á dögunum þegar hann ætlaði að ganga um borð án grímu. Hann sagði við vagnstjórann að hann þyrfti ekki að bera grímu vegna þess að hann væri búinn að fá kórónuveiruna og væri því ónæmur. Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó segir að sömu reglurnar gildi yfir alla enda sé engin leið fyrir vagnstjóra að sannreyna hverjir eru ónæmir og hverjir ekki.

Grímulausum vísað frá

Guðmundur segir heilt yfir að langflestir farþegar fari eftir settum reglum en eins og alltaf þá séu einn og einn sem vilji ekki hlýða.

„Fólki er vísað frá ef það er ekki með grímu, það er reglan. Vagnstjórar hafa hins vegar verið misstrangir á þessu. Við höfum fengið ábendingar frá farþegum um vagnstjóra sem hafa verið að hleypa of mörgum grímulausum um borð. Við reynum að skrá þær ábendingar niður, fylgja þeim eftir og ræða það við viðkomandi vagnstjóra,"

Hræddir við að fá kvartanir

Guðmundur segist vita til þess að mikið af erlendum bílstjórum séu hræddir við að fá kvartanir. „Reglurnar eru mjög skýrar og kvartanir mega alveg berast til okkar upp á skrifstofu. Við erum alltaf að fara að geta réttlætt það að vísa fólki frá fyrir að fylgja ekki reglum."

Farþegar verða að koma með sína eigin grímu.
Mynd: Pexels

Grímur skylda en ekki boðið upp á þær

Strætó býður ekki upp á grímur endurgjaldslaust í vögnum sínum en farþegar verða að eiga sína eigin til að mega koma um borð.

„Við ræddum í byrjun um að bjóða upp á grímur en fannst það ekki viðeigandi. Að vera með kassa sem allir væru að fara ofan í, okkur fannst það ekki sniðugt upp á sameiginlega snertifleti og annað. Það er heldur ekki möguleiki hjá okkur að selja grímur um borð, vagnstjórar eru bara að taka á móti fargjöldum.