Á Þorláksmessu staðfesti Landsréttur gæsluvarðhaldsúrskurði yfir tveimur mönnum í stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar.

Báðum mönnunum er gert að vera í varðhaldi til sautjánda janúar á næsta ári.

Mennirnir eru grunaðir um innflutning á tæplega hundrað kílóum af kókaíni, en efnin fundust í timbursendingu í Hollandi sem var  á leið til landsins. Þar var þeim skipt út fyrir önnur gervefni og flutt til Íslands þar sem fjórir menn voru síðan handteknir.

Lögregla hleraði samtal við óþekktan aðila

Úrskurðirnir hafa nú verið birtir en í öðrum þeirra er farið yfir framburð annars mannsins fyrir lögreglu.

Sá segist hafa leigt iðnaðarpláss og segir að sitt hlutverk hafi verið að opna drumba sem innihéldu fíkniefni og koma þeim síðan áleiðis. Honum hafði verið tjáð að kókaín væri í drumbunum. Hann sagðist ekki vita nákvæmlega hversu mikið en vissi að þarna áttu að vera tugir kílóa.

Maðurinn sagðist hafa átt að fá greiddar tíu milljónir fyrir sitt hlutverk, en breytti síðan framburði sínum í fimm milljónir. Áður hefur komið fram að annar sakborningur hafi sagst eiga að fá þrjátíu milljónir fyrir aðild sína að málinu, en dró það síðan til baka.

Lögregla hafði heimild til að hlera hjá manninum og í úrskurðinum segir að hún hafi hljóðupptöku af því þegar hann ræðir við óþekktan aðila sem leiðbeinir honum um „skiptingu  efnanna,  magntökur og annað tengt afhendingu efnanna.“

Um var að ræða tæplega hundrað kíló af kókaíni og að markaðsvirði efnanna hlaupi á milljörðum.
Mynd/Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

Í úrskurðinum yfir hinum manninum kemur fram að sá hafi lítið viljað tjá sig um málið við lögreglu. Þó megi sjá samskipti hans og annars sakbornings í farsímagögnum í málinu.

Þau samskipti beri með sér að fjallað sé um peningagreiðslur á milli sakborninganna og önnur samskipti sem varða flutning á gámnum til landsins og affermingu hans.