Það hitnaði í kolunum í upphafi þingfundar í morgun þegar þingmaður sakaði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra og Útlendingastofnun um valdarán.

Arndís Anna Kristjánsdóttir pírati hóf umræðu undir liðnum fundarstjórn forseta um það sem hún kallaði "sífelld lögbrot Útlendingastofnunar í skjóli dómsmálaráðherra", það er að meina þinginu um gögn sem tengjast upplýsingum um afgreiðslu á ríkisborgararétti.

Að sögn Arndísar Önnu hefur Jón Gunnarsson haldið fram að ekki þyrfti að afhenda gögnin. Nú hafi komið fram lagaálit innan þingsins sem staðfesti að Jón Gunnarsson og Útlendingastofnun þurfi að afhenda þessi gögn.

„Ég vil ítreka beiðni til forseta þingsins að grípa inn í málið og óska eftir svörum hverig forseti vill bregðast við þessu valdaráni,“ sagði Arndís Anna.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður pírata, sagði afstöðu ráðherra og Útlendingastofnunar forkastanlega.

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði: „Það er verið að hindra þingið í því að geta sinnt sínu hlutverki sem er að veita fólki ríkisborgararétt.“

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður menntamála- og allsherjarnefndar, sagði langt seilst að ræða lögbrot í þessu samhengi. Útlendingastofnun hafi aldrei sagt að stofnunin ætlaði sér ekki að afhenda þessi gögn. Stofnuninni sé ljóst að það verði að veita upplýsingarnar en málið snúist um tíma. Tíminn sé orðinn of langur.