Eggert Eyjólfsson, sérfræðilæknir í bráðalækningum, lauk sinni síðustu vakt á bráðamóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss í lok desember eftir að hafa sagt upp störfum þar.

Eftir að Eggert sagði upp opnaði hann sig í fjölmiðlum um uppsögnina og ástæður hennar en eins og margir aðrir þá fékk hann leið á ástandinu sem er þar. Hann hefur lýst starfsaðstæðum sem óboðlegum og sagt stjórnvöld skeyti engu um margítrekaðar beiðnir um auknar fjárveitingar. Eggert hefur jafnframt bent á að öryggi sjúklinga sé ógnað og heilsu starfsfólks við þetta ófremdarástand. Eggert ræðir þetta og meira í nýju hlaðvarpi, Heilsumál, í umsjón Bents Marínóssonar.

„Kollegar mínir á gjörgæsludeild Landspítalans eru nú að sinna 21 sjúklingi, á tveimur deildum, sem hafa pláss samtals fyrir 14 sjúklinga. Þannig það eru sjö sjúklingum umfram það sem þeir eiga að geta sinnt“, segir Eggert og ítrekar gríðarlega alvarlegan veruleika sem blasir við kollegum sínum.

Hann segir að viðmiðið eigi að vera það að sjúkrahúsið sé aldrei meira en 85 prósent fullt og að aðeins þannig geti spítalinn tekist á við álagstoppa og sinnt valkvæðum aðgerðum eins og vegna alvarlegra hjartasjúkdóma, krabbameins og rannsókna sem eru sjúklingum lífsnauðsynlegar.

„Þetta er stundum ekki hægt í dag vegna þess að sjúkrahúsið er fullt,“ segir Eggert og að annað stórt vandamál sé undirmönnun.

„Spítalinn er krónískt undirmannaður og fólk flýr vinnustaðinn því það er að sinna miklu fleiri verkefnum en það á að vera gera,“ segir Eggert og heldur áfram:

„Þetta fólk færðu ekki til baka með því að vinna á undirmönnuðum og undirfjármögnuðum spítala við ofurálag sem er líklegt til að valda því nánast heilsutjóni á tveimur til þremur árum.“

Útskrifuð á 20 mínútum

Eggert hefur sem læknir víðtæka reynslu en hann lauk sínu sérnámi í Nýja-Sjálandi þar sem hann starfaði um árabil á bráðamóttöku í Christchurch. Í hlaðvarpinu fer hann yfir hversu gott skipulag var þar, samskiptaferlar vel smurðir og deildir bæði innan og utan spítalans svo sem heilsugæslan, rannsóknastöðvar, sjúkraþjálfarar og fleiri tala saman.

Hann segir sem dæmi frá því þegar 87 ára gömul kona kom á bráðamóttökuna í Christchurch með sjúkrabíl og var útskrifuð þaðan á 20 mínútum og lögð inn á almenna deild. Til samanburðar þá er meðal biðtími sjúklinga eftir útskrift af bráðamóttöku LSH um 26 klukkustundir að sögn Eggerts.

Hann segir hlutverk bráðamóttöku eiga fyrst og fremst að sinna fólki sem eigi við bráðan heilsubrest að stríða eða sé töluvert slasað.

„Fólk ætti ekki eiga að koma á bráðamóttökuna með þekkt vandamál, nema um verulega versnun á því vandamáli sé að ræða. Þá erum við að tala um verulega aukna verki og jafnvel með hita sem fylgir. Fólk er of oft að koma á bráðamóttökuna með þekkt vandamál til að komast „inn í kerfið“, sem virðist vera stundum viðkvæðið því bráðamóttakan hefur orðið nær eina hurðin inn á spítalann, eða heilbrigðiskerfið."

Tuttugu bílar bíða fyrir utan spítalann

Hann segir við á Íslandi þó ekki þau einu sem glími við erfiða stöðu í heilbrigðiskerfinu en sem dæmi þá sé staðan í breska heilbrigðiskerfinu enn alvarlegri en hér og sjúklingar þurfi jafnvel að bíða tímunum saman í sjúkrabíl fyrir utan sjúkrahúsið því það kemst enginn að.

Eggert bendir enn fremur á þá staðreynd að óæskileg bið í bráðaþjónustu á Bretlandseyjum sé talin valda 500 ótímabærum dauðsföllum á viku.

„Við erum ekki alveg komin þangað. Ég óttast að við séum að stefna þangað að hér muni fjórir til fimm sjúkrabílar bíða í lengri tíma fyrir utan bráðamóttökuna með tilheyrandi afleiðingum," segir hann.

Eggert segir stöðuna í Ástralíu líka slæma og þar séu dæmi um að 20 til 30 sjúkrabílar bíði fyrir utan spítalann. Þar sé þó annað vel gert og að það megi hjúkrunarfræðingar ekki vera með fleiri en fjóra sjúklinga hverju sinni í umsjón.

„Það er ekki til neinskonar tölur eða hámark hér,“ segir Eggert og vísar í fjölda sjúklinga sem hjúkrunarfræðingar sinna á bráðamóttöku.

Eiginkona Eggerts er hjúkrunarfræðingur og starfaði á bráðamóttöku LSH.

„Konan mín kom heim eftir næturvakt þar sem hún hafði tólf sjúklinga, stundum þrettán sjúklinga á sinni könnu,“ segir Eggert og bendir á að það séu mun fleiri að vinna við slíkt ofurálag og jafnvel með fleiri sjúklinga í sinni umsjón og hjúkrunarfræðingar séu algjörlega ofhlaðnir verkefnum.