Arnar Þór Jónsson dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur hefur sagt sig úr Dómarafélagi Íslands vegna ágreinings um tjáningarfrelsi dómara og efni siðareglna fyrir félagið.

„Haustið 2019 var haldinn lokaður fundur á vettvangi Dómarafélagsins um tjáningarfrelsi dómara. Ég óskaði eftir því að þessi fundur yrði opinn og auglýstur enda var mér ljóst að fyrirhugað efni hans var tjáningarfrelsi mitt. Á fundinum var spjótum beint að mér og minni tjáningu og átti hann stóran þátt í því að ég kaus að segja mig úr félaginu,“ segir Arnar Þór.

Siðareglur andsnúnar Frímúrurum

Arnar Þór hefur lengi gagnrýnt ákvæði siðareglna Dómarafélagsins, meðal annars takmörkun á borgaralegum réttindum eins og félagafrelsi. Í siðareglunum er mælt gegn því að dómarar taki opinberlega þátt í stjórnmálastarfi eða í félögum þar sem leynd hvílir yfir siðareglum, félagatali eða starfsemi félags.

Ljóst er að með umræddu ákvæði er spornað gegn aðild dómara í félögum á borð við Frímúrararegluna.

„Ítrekuð boð mín um að flytja erindi á vettvangi Dómstólasýslunnar og Dómarafélagsins um augljósa ágalla á siðareglum dómara hafa ekki verið þegin,“ segir Arnar Þór. Hann segist enn fremur hafa skrifað fjölmargar greinar í blöð og tímarit eftir úrsögn sína úr félaginu en enga efnislega athugasemd fengið frá kollegum sínum í dómarastétt.

Almenn sátt um siðareglur dómara

Fréttablaðið ræddi við nokkra dómara sem vildu þó ekki láta hafa neitt eftir sér um úrsögn Arnars Þórs úr Dómarafélaginu. Voru þó allir á einu máli um að almenn sátt ríkti meðal dómara um efni siðareglnanna.

Þá taki lög af skarið um helstu álitaefni um tjáningarfrelsi dómara og þeim sé örðugt að koma sér undan siðferðilegum viðmiðum með því einu að vera ekki félagar í Dómarafélagi Íslands.