„Á einhverjum tímapunkti gæti það farið að gera gæfumuninn að múta einum foringja þessara manna.“ Þetta skrifaði Aðalsteinn Helgason, þáverandi framkvæmdastjóri Kötlu Seafood á Kanaríeyjum, í tölvupósti til Jóhannesar Stefánssonar og Ingvars Júlíussonar þann 16. desember 2011. Var þetta um það leyti sem Samherji, móðurfélag Kötlu Seafood, var að taka sín fyrstu skref í sjávarútgegi Namibíu. Stýrði Aðalsteinn jafnframt starfsemi Samherja í Afríku.

Tölvupósturinn var meðal gagna sem ríkissaksóknari Namibíu, Martha Imalwa, lagði fram undir lok síðasta mánaðar í tengslum við rannsókn á mútugreiðslum sem namibískir embættismenn tóku við frá Samherja í skiptum fyrir fiskveiðikvóta á miðum Namibíu. Gögnin voru ekki meðal þeirra tölvusamskipta sem WikiLeaks birti árið 2019 eftir að Jóhannes gerðist uppljóstrari, heldur aflaði embætti héraðssaksóknara á Íslandi þeirra af vefþjónum Samherja og sendi namibískum lögregluyfirvöldum, að því er kemur fram í umfjöllun Kjarnans.

Tölvusamskiptin stangast á við ítrekaðar staðhæfingar yfirmanna Samherja um að Jóhannes hafi einn staðið fyrir mútugreiðslunum og því ólöglega athæfi sem kann að hafa verið viðhaft í Namibíu. Sjálfur hefur Jóhannes áður staðhæft að Aðalsteinn hafi fyrirskipað honum að greiða mútugreiðslurnar og virðist pósturinn renna stoðum undir þá frásögn. Í samtali við Stundina hafði Aðalsteinn hafnað því afdráttarlaust að hafa nokkurn tímann fyrirskipað greiðslu mútufjár og vænt Jóhannes um lygar.

Í svari Jóhannesar til Aðalsteina, dagsettu 17. desember 2011, er nánar gerð grein fyrir ætlunum um að koma greiðslum til þáverandi sjávarútvegsráðherrans, Bernhards Esau, í gegnum tengdason hans. Tekur Jóhannes þar svo til orða að hugmyndin sé að ráðherrann verði þess fullviss um að „hann fái eitthvað ef hann færir okkur eitthvað“.