Aðalmeðferð í frávísunarmáli Ríkisútvarpsins og Matvælastofnunar gegn tveimur félögum sem keyptu skaðabótakröfu Brúneggja fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Félögin fara fram á viðurkenningu vegna tjóns þegar Brúnegg fóru í þrot í kjölfar Kveiksþáttar sem sýndur var þann 28. nóvember árið 2016.

Félögin eru Bali og Geysir fjárfestingarfélag sem Kristinn Gylfi Jónsson, annar fyrrverandi eiganda Brúneggja, fer fyrir.

Viðar Lúðvíksson, lögmaður Bala og Geysis, sagði Matvælastofnun hafa á saknæman hátt hafa veitt Ríkisútvarpinu gögn án þess að eigendur Brúneggja fengju andmælarétt. Þá hefði fréttaflutningurinn verið villandi og rangur.

„Matvælastofnun hafði ekki heimildir til að lýsa neinn sem bestan eða verstan,“ sagði Viðar. En í þættinum var fjallað um ágalla við aðbúnað fuglanna og sagt að egg Brúneggja væru ranglega markaðssett sem vistvæn.

Var því lýst hvernig Brúnegg hrundu á einni nóttu en smásalar hringdu samstundis í fyrirtækið og kröfðust þess að eggin yrðu fjarlægð úr búðum. Hagnaður hafði aukist ár frá ári og var 33 milljónir á fyrri helmingi ársins 2016 og 21 starfsmaður var hjá fyrirtækinu. Salan jókst úr 35 milljónum í 44 milli október og nóvember, en vegna skila var salan neikvæð í desember um 16 milljónir. Í janúar voru egg seld til samkeppnisaðila á hrakvirði.

Lögmaður Matvælastofnunar, Soffía Jónsdóttir, sagði kröfugerð Bala og Geysis óljósa og að blandað væri saman dómkröfum og málsástæðum. Þetta væri ekki samkvæmt lögum um meðferð einkamála.

Stefán A. Svensson, lögmaður Ríkisútvarpsins, flutti málið að stærstum hluta fyrir ríkisstofnanirnar og lýsti frekari göllum á kröfum Bala og Geysis. Það er, að í stefnu væri tjónið bæði talið Brúneggja sem félags og hluthafanna í félaginu. Væri því verið að tvíkrefja um tjónið en meint tjón gæti aðeins orðið félagsins í viðurkenningarmálum.

Viðar hafnaði þessu og sagði kröfurnar sjálfstæðar og aðgreindar. Þar að auki væru engar tjónafjárhæðir nefndar eða hlutföll milli tjónþola. Þetta væri dómsins að ákveða. Einnig hafnaði hann málflutningi Matvælastofnunar.

Ár er síðan málið hófst í réttarkerfinu og síðan hefur skiptum á þrotabúi Brúneggja verið lokið. Í réttinum var deilt um gagngjald sem félögin höfðu greitt þrotabúinu fyrir kröfuna á hendur Ríkisútvarpinu og Matvælastofnun en Viðar og Kristinn, sem var viðstaddur, sögðu skiptastjóra hafa farið fram á trúnað um upphæðina.

Einnig var fjallað um þær hænur sem Brúnegg seldu til Gjáholts fyrir gjaldþrotið en lögmenn Ríkisútvarpsins og Matvælastofnunar töldu kröfuna hafa fylgt bústofninum. Viðar hafnaði því og sagði kröfu ekki geta fylgt seldum lausafjármunum frekar en hitalampa eða traktor.

Þá vísaði Viðar ítrekað til hins svokallaða kjötbökumáls sem væri að stórum hluta sambærilegt við Brún­eggjamálið. En í janúar úrskurðaði Hæstiréttur að fyrirtækið Kræsingar frá Borgarnesi fengi 112 milljónir króna í skaðabætur eftir að Matvælastofnun hafði birt frétt um kjötlausar kjötbökur á vefsíðu sinni