Lögregluyfirvöld í Japan hafa nafngreint manninn sem handtekinn var í tengslum við íkveikjuna í myndveri í borginni Kýótó í gær sem varð til þess að 33 fórust.

Sá heitir Shinji Aoba og er rúmlega fertugur. Sjónarvottar segja að Aoba hafi, þegar hann lagði eld að byggingu myndversins KyoAni, hrópað „deyið“. Þá hafi hann, við handtökuna, sagt að forsvarsmenn myndversins hafi stolið af honum hugmyndum fyrir myndasögu.

Í kringum 70 manns voru í byggingunni þegar eldurinn kviknaði. Auk hinna 33 látnu voru 36 fluttir á sjúkrahús. Greint hefur verið frá því að lík hafi fundist á stigagangi sem leiðir upp á þak byggingarinnar.

Talið er að fólkið hafi verið að reyna að flýja eldsvoðann sem átti upptök sín á fyrstu hæð hússins. Talið er að Aoba, sem býr í Tókýo, 480 kílómetrum frá Kýótó, hafi keypt tvo 20 lítra brúsa í byggingavöruverslun.

Reuters greinir frá því að um sé að ræða stærstu fjöldamorð í Japan síðan árið 2001 þegar 44 létust eftir íkveikju í Tókýó.